COVID-19 heimsfaraldur getur haft margvísleg áhrif á ársreikninga fyrir árið 2020. Það er því að ýmsu að hyggja og nauðsynlegt að greina áhrifin tímanlega og vanda til verka til að tryggja að ársreikningar uppfylli allar kröfur sem til þeirra eru gerðar.

ÁHRIF COVID-19 Á ÁRSREIKNINGA 2020

FRÁSÖGN AF FARALDRI
Jóhann I.C. Solomon, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG ehf. og Unnar Friðrik Pálsson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG ehf. og aðjunkt í reikningshaldi við Háskólann í Reykjavík.

Eins og allir vita hefur heimsfaraldur COVID-19 haft veruleg áhrif á rekstur margra félaga frá því hann skall á með fullum þunga snemma á síðasta ári. Áhrifin eru misjöfn eftir fyrirtækjum en verulega neikvæð í sumum atvinnugreinum, ekki síst ferðaþjónustu.  Sumar atvinnugreinar hafa sloppið þokkalega frá faraldrinum og í einhverjum tilvikum hefur eftirspurn eftir vörum og þjónustu jafnvel aukist.
Í þessari grein verður í stuttu máli leitast við að vekja athygli á nokkrum mögulegum áhrifum COVID-19 á ársreikninga félaga fyrir árið 2020 en rétt er að hafa í huga að ekki er um tæmandi umfjöllun að ræða. Umfjöllunin byggir bæði á ársreikningalögum og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum en samkvæmt 3. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga skal fara eftir viðeigandi ákvæðum í settum reikningsskilareglum ef ekki er tekið á viðkomandi úrlausnarefni í lögunum eða reglugerðum. Settar reikningsskilareglur eru annars vegar alþjóðlegir reikningsskilastaðlar og hins vegar reglur reikningsskilaráðs. Stjórnendur félaga sem gera ársreikninga sína fyrir árið 2020 í samræmi við lög um ársreikninga þurfa því að hafa þetta í huga.

REKSTRARHÆFI
Hugtakið rekstrarhæfi er skilgreint í 32. tölul. 2. gr. ársreikningalaga. Þar segir að félag sé talið vera rekstrarhæft nema stjórnendur þess ætli sér að leysa félagið upp eða hætta rekstri þess eða hafa ekki raunhæft val um annað en hætta starfsemi félagsins. Við mat á rekstrarhæfi skulu stjórnendur taka tillit til allra fyrirliggjandi upplýsinga um framtíðarhorfur í rekstri félagsins. Í II. kafla laganna um grunnforsendur ársreiknings kemur fram að við gerð ársreiknings skuli gera ráð fyrir að félagið haldi starfsemi sinni áfram en leggist hún niður að hluta skuli taka tillit til þess við mat og framsetningu ársreikningsins. Í lögunum er ekki að finna nánari leiðsögn um mat eða framsetningu í þessum tilvikum.

Umfjöllun um hugtakið rekstrarhæfi er áþekk í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum en þar er tekið fram að séu reikningsskilin ekki sett fram miðað við áframhaldandi rekstrarhæfi skuli greina frá því á hvaða grunni þau eru gerð. Í IAS 1 Framsetning reikningsskila segir að við mat á rekstrarhæfi skuli stjórnendur taka tillit til allra fyrirliggjandi upplýsinga um framtíðina og þá að lágmarki horfa ár fram í tímann frá reikningsskiladegi.

Eins og sjá má er leiðsögn um á hvaða grunni setja skuli reikningsskilin fram ef rekstrarhæfisforsendan er brostin ekki ítarleg. Í  bók sinni um alþjóðlegu reikningsskilastaðlana kemur fram það mat KPMG að þó rekstrarhæfisforsendan sé ekki til staðar ætti það almennt ekki að fela í sér heimild til að hætta að beita reglum staðlanna um mat, skráningu og upplýsingagjöf. Hins vegar þurfi eftir atvikum að beina sjónum sérstaklega að beitingu ákveðinna staðla og reglna, svo sem vegna fastafjármuna til sölu og aflagðrar starfsemi (IFRS 5) og virðisrýrnunar eigna (IAS 36).

FÆRSLA OPINBERRA STYRKJA
Í mörgum löndum hefur hið opinbera gripið til ýmissa stuðningsaðgerða vegna neikvæðra efnahagslegra áhrifa COVID19 á fyrirtæki og einstaklinga. Ísland er hér engin undantekning. Yfirlit um aðgerðir ríkisstjórnarinnar má nálgast á vef Stjórnarráðsins. Í ársreikningalögunum, reglugerðum og reglum reikningsskilaráðs er ekki fjallað um aðgerðir hins opinbera á reikningsskil félaga. Af því leiðir að fyrirtæki sem gera ársreikninga sína fyrir árið 2020 í samræmi við ársreikningalög þurfa að fara eftir viðeigandi ákvæðum í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 20 Færsla opinberra styrkja og upplýsingar um opinbera aðstoð.

Opinber aðstoð er víðtækara hugtak en opinber styrkur. Þannig er opinber styrkur ein tegund opinberrar aðstoðar. Í IAS 20 kemur fram að opinber aðstoð er aðgerð hins opinbera í því skyni að veita sérstaklega fyrirtæki eða fyrirtækjum, sem uppfylla tiltekin skilyrði, efnahagslegan ávinning. Í opinberum styrk felst aðstoð sem hið opinbera veitir í formi yfirfærslu verðmæta til fyrirtækis að því tilskildu að það hafi uppfyllt eða muni uppfylla tiltekin skilyrði er varða rekstur þess. Nauðsynlegt er að greina  hvort opinber aðstoð sem fyrirtæki hefur fengið sé í formi opinbers styrks, þ.e. yfirfærslu verðmæta til fyrirtækis, því slíka styrki þarf að færa í reikningsskilin. Opinberan styrk skal ekki færa fyrr en nokkuð öruggt er að fyrirtækið muni uppfylla skilyrðin sem hann er veittur með og að hann verði móttekinn.

Opinberan styrk skal færa í rekstrarreikning með kerfisbundnum hætti á þeim tímabilum sem félög gjaldfæra kostnaðinn sem styrknum er ætlað að mæta. Opinber styrkur sem er innheimtanlegur sem bætur vegna gjalda eða tapa sem þegar hefur verið stofnað til eða veittur í því skyni að veita félagi fjárhagsstuðning tafarlaust án nokkurs tengds kostnaðar í framtíðinni skal færa  sem tekjur á því tímabili sem hann er innheimtanlegur.

Opinber styrkur getur annaðhvort verið eignatengdur eða tekjutengdur. Eignatengdir styrkir eru opinberir styrkir þar sem frumskilyrðið er að fyrirtæki skuli kaupa, byggja eða með öðrum hætti afla eigna til langs tíma. Tekjutengdir styrkir eru opinberir styrkir aðrir en þeir sem eru eignatengdir. Ef um eignatengdan styrk er að ræða er val um að færa hann í upphafi til skuldar sem  frestaðar tekjur og tekjufæra í rekstrarreikningi á nýtingartíma eignarinnar sem um ræðir. Önnur leið er að færa hann til lækkunar á stofnverði eignarinnar. Í síðarnefnda tilvikinu kæmi hann þá fram í rekstrarreikningi í lægri afskriftum í framtíðinni en ella væri. Við framsetningu tekjutengds styrks í rekstrarreikningi koma nokkrar leiðir til greina. Hægt er að færa hann sem sérgreindan lið, sem væri við hæfi ef um verulega fjárhæð er að ræða, meðal annarra tekna eða færa hann til lækkunar á viðeigandi kostnaðarlið. 

FLOKKUN SKULDA Í EFNAHAGSREIKNINGI ÞEGAR SKILMÁLAR LÁNASAMNINGA ERU EKKI LENGUR UPPFYLLTIR
Í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 1 Framsetning reikningsskila kemur fram að ef lánaskilmálar eru ekki uppfylltir á reikningsskiladegi, með þeim afleiðingum að langtímalán verður greiðslukræft, skuli lántaki flokka lánið sem skammtímaskuld. Þetta gildir jafnvel þó lánaskilmálum sé breytt, þeim aflétt eða kröfuhafi staðfestir að ekki verði gengið að láninu eftir lok reikningsskiladags en fyrir birtingu reikningsskilanna.

Í lögum um ársreikninga kemur fram í c. lið 37. tölul. 2. gr. að skuld flokkist sem skammtímaskuld ef ekki er til staðar réttur til að fresta greiðslu hennar lengur en í tólf mánuði frá dagsetningu efnahagsreiknings.

ÁHRIF VEGNA FJÁRMÁLAGERNINGA
Áhrifin á ársreikninga fyrir árið 2020 vegna fjármálagerninga geta verið margvísleg. Hér má nefna sem dæmi áhrif vegna:
• Breytinga á skilmálum lánasamninga;
• Útgáfu hlutafjár og áskriftaréttinda;
• Uppgjörs skulda með afhendingu eigin hlutabréfa;
• Virðisrýrnunar útlána og krafna;
• Upplýsingagjafar í ársreikningum.

Breytingar á skilmálum lánasamninga kalla m.a. á að lánveitendur og lántakendur leggi mat á það hvort skilmálabreytingar teljast verulegar eða ekki. Niðurstaða þessa mats hefur svo áhrif á reikningshaldslega meðhöndlun breytinganna:
• Ef niðurstaðan er sú að breytingarnar eru verulegar ber að færa bókfært verð lánasamninga fyrir skilmálabreytingu úr efnahagsreikningi, færa nýtt bókfært verð í staðinn miðað við gangvirði skilmálabreyttra lánasamninga og færa mismun milli eldra og nýs bókfærðs verðs, ef einhver er, í rekstrarreikning.
• Ef niðurstaðan er sú að breytingarnar eru ekki verulegar ber að endurreikna bókfært verð lánasamninga miðað við upphaflega virka vexti þeirra og færa mismun milli eldra og nýs bókfærðs verðs, ef einhver er, í rekstrarreikning – nema hægt sé að meðhöndla mismuninn sem breytingu á virkum vöxtum lánasamninga.

Breytingar á skilmálum lánasamninga geta einnig haft áhrif á fjárhæð fjármagnskostnaðar sem er eignfærður sem hluti af bókfærðu verði eigna.

Útgáfa hlutafjár og áskriftaréttinda kallar m.a. á að útgefendur:
• Gangi úr skugga um að færsla þeirra í bókhaldi sem eiginfjárgerningar sé í samræmi við gildandi reglur;
• Hugi að færslu kostnaðar sem fellur til vegna útgáfu hlutafjár og áskriftaréttinda en færa ber slíkan kostnað beint til lækkunar á eigin fé ef hann er viðbótarkostnaður sem rekja má beint til eiginfjárviðskipta.

Uppgjör skulda með afhendingu eigin hlutabréfa kallar m.a. á að skuldarar:

• Skoði hvort hægt sé að meta gangvirði eigin hlutabréfa með áreiðanlegum hætti. Ef svo er, ber skuldurum að færa hlutabréfin upphaflega í bókhald miðað við gangvirði þeirra. Ef svo er ekki, ber skuldurum að færa hlutabréfin miðað við gangvirði skulda sem eru gerðar upp.
• Skoði hvort skuldir eru gerðar upp í heild sinni eða að hluta til. Ef skuldir eru gerðar upp að hluta til þarf að skoða hvort hluti eigin hlutabréfa sem gefin eru út tengist breytingum á skilmálum þess hlutar skuldanna sem er ekki gerður upp. Ef svo er, ber skuldurum að skipta fjölda eigin hlutabréfa milli þess hlutar skulda sem er gerður upp og þess hlutar skulda sem er ekki gerður upp.
• Færi í rekstrarreikning mismuninn milli bókfærðs verðs skulda sem eru gerðar upp og bókfærðs verðs eigin hlutabréfa sem eru afhent, þ.e.a.s. að því gefnu að kröfuhafar séu ekki jafnframt beinir eða óbeinir hluthafar í félaginu sem gefur út hlutabréfin og að þeir komi ekki fram sem hluthafar í þessum viðskiptum. Ef kröfuhafar eru jafnframt beinir eða óbeinir hluthafar og þeir koma fram sem hluthafar í þessum viðskiptum ber skuldurum að færa mismuninn beint á eigið fé.

Virðisrýrnun útlána og krafna kallar m.a. á að kröfuhafar:
• Leggi mat á það hvort lánsáhætta útlána og krafna hafi aukist verulega frá því útlánin og kröfurnar voru upphaflega færð í bókhald. Þetta á hins vegar ekki við um viðskiptakröfur og samningseignir sem eru ekki með verulegan fjármögnunarþátt.
• Uppfæri eða breyti aðferðafræði sem þeir hafa notað við mat á virðisrýrnun til að taka tillit til núverandi efnahagsástands og  væntinga um efnahagsástand í framtíðinni;
• Noti mismunandi sviðsmyndir um áhrif efnahagsástands í framtíðinni á útlánatöp;
• Taki tillit til áhrifa sem aðgerðir stjórnvalda kunna að hafa á vanskilaáhættu skuldara.

Reglur um upplýsingagjöf í ársreikningum kalla m.a. á að veittar séu upplýsingar sem gera notendum ársreikninga kleift að meta áhrif COVID-19 faraldurs á mat og færslu fjármálagerninga og á fjárhagslega áhættu og áhættustýringu. Auk upplýsinga um áhrif vegna þeirra atriða sem fjallað er um hér að framan má nefna upplýsingagjöf um eðli og umfang lánsáhættu, lausafjáráhættu og markaðsáhættu sem og um áhættustýringu þeirra.

ÁHRIF VEGNA LEIGUSAMNINGA
Áhrifin á ársreikninga fyrir árið 2020 vegna leigusamninga geta verið margvísleg. Hér má nefna sem dæmi áhrif vegna:
• Breytinga á skilmálum leigusamninga;
• Leiguívilnana;
• Endurmats á leigutíma;
• Upplýsingagjafar í ársreikningum.

FRS 16 inniheldur sérstakar reglur um meðhöndlun leigutaka og leigusala á breytingum á skilmálum leigusamninga. Félög sem fara eftir ákvæðum staðalsins þurfa að komast að raun um hvort um breytingar á skilmálum leigusamninga í skilningi staðalsins sé að ræða. Þetta getur verið tímafrekt og vandasamt verkefni þar sem mismunandi leigusamningar innihalda yfirleitt ólík  ákvæði auk þess sem ýmis lögfræðileg álitamál kunna að vakna við túlkun samningsákvæða og laga og reglna sem gilda um leigusamninga. Ef um skilmálabreytingar er að ræða felur það yfirleitt í sér að leigutakar þurfa að endurreikna bókfært verð leiguskuldar með því að nota nýjar leigugreiðslur og núvirða þær með nýjum vöxtum.

Til að einfalda beitingu IFRS 16 fyrir leigutaka breytti Alþjóðareikningsskilaráðið (IASB) staðlinum í maí á síðasta ári þannig að leigutökum er heimilt að sleppa því að leggja mat á hvort leiguívilnanir, sem eru beinar afleiðingar af COVID-19 faraldrinum og uppfylla ákveðin skilyrði, séu breytingar á skilmálum leigusamninga eða ekki. Þess í stað færa leigutakar slíkar leiguívilnanir í samræmi við almennar reglur IFRS 16, kjósi þeir á annað borð að nýta sér þessi praktísku úrræði. Þetta felur almennt í sér að leigutakar færa ávinninginn af leiguívilnunum í rekstrarreikning þegar samið er um þær eða, ef þær eru háðar einhverjum  skilyrðum, þegar viðkomandi skilyrði eru uppfyllt.

Leigutökum er hins vegar áfram skylt að beita reglum IFRS 16 um meðhöndlun breytinga á skilmálum leigusamninga ef þeir kjósa að beita ekki þessum praktísku úrræðum eða ef leiguívilnanir uppfylla ekki skilyrði IFRS 16 fyrir beitingu þeirra.

Leigutökum ber við tilteknar aðstæður að endurmeta hvort þeir eru nokkuð vissir um að nýta framlengingarheimildir eða nýta  ekki uppsagnarheimildir. Þetta endurmat getur leitt til breytinga á leigutíma og þar með á bókfærðu verði leiguskulda og leigueigna. COVID-19 heimsfaraldurinn sem slíkur er ekki atburður sem kallar sjálfkrafa á endurmat á leigutíma heldur eru það aðgerðir sem leigutakar grípa til vegna faraldursins sem kunna að kalla á það.

Reglur um upplýsingagjöf í ársreikningum vegna leigusamninga kalla m.a. á að veittar séu upplýsingar sem gera notendum  ársreikninga kleift að meta áhrif aðgerða vegna COVID19 á mat og færslu leigusamninga. Auk upplýsinga um áhrif vegna þeirra  atriða sem fjallað er um hér að framan má nefna upplýsingagjöf leigutaka um sveigjanleika í leigusamningum, rekstrarleg og fjárhagsleg áhrif af nýtingu uppsagnarheimilda, tilvist og mögulegt útstreymi handbærs fjár vegna ónotaðra uppsagnarheimilda, eftirstöðvagreiningu leiguskulda og stýringu á lausafjáráhættu vegna leigusamninga. 

ÁHRIF Á GANGVIRÐISMAT
Gangvirðismat vegna ársreikninga fyrir árið 2020 getur verið vandasamt vegna óvissunnar sem COVID-19 faraldurinn hefur valdið. Áreiðanlegasta mat á gangvirði er skráð verð á virkum markaði. Þegar því er ekki til að dreifa ber að nota matsaðferðir sem byggja eins mikið og hægt er á markaðsupplýsingum og eins lítið og hægt er á eigin forsendum.

Meta ber gangvirði eigna og skulda með því að nota matsaðferðir og forsendur sem eru viðeigandi á hverjum tíma. Óvissa um framtíðarsjóðstreymi vegna COVID-19 getur gert það að verkum að skipta ætti um matsaðferð og/eða gera talsverðar breytingar á eigin forsendum til að gangvirðismatið endurspegli óvissu og áhættuálag markaðarins á matsdegi. Þetta getur leitt til þess að  gangvirðismat flokkast í meira mæli í þriðja stig gangvirðismats, með umfangsmeiri kröfum um upplýsingagjöf í ársreikningum.

Miðað við þá auknu óvissu og aukið vægi eigin forsenda í gangvirðismati má fastlega búast við því að upplýsingagjöf vegna  gangvirðismats skipti enn meira máli við gerð ársreikninga fyrir árið 2020 en á fyrri árum. Hafa ber í huga að markmiðið með  upplýsingagjöfinni er að í ársreikningum séu birtar upplýsingar sem gera notendum kleift að leggja mat á aðferðir og forsendur  sem voru notaðar við gangvirðismatið sem og áhrif þeirra á fjárhagsstöðu og afkomu.

ÁHRIF Á VIRÐISRÝRNUN EIGNA
Vegna COVID-19 geta margvíslegar vísbendingar verið til staðar um að virði eigna hafi rýrnað. Því eru talsverðar líkur á því að framkvæma þurfi virðisrýrnunarpróf við gerð ársreikninga fyrir árið 2020. Vanda þarf til verka því erfitt getur reynst að meta framtíðarsjóðstreymi og ávöxtunarkröfu vegna mikillar óvissu.

Meta þarf hvort ástæða sé til að breyta um nálgun við mat á framtíðarsjóðstreymi, úr hefðbundinni aðferð, þar sem notast er við líklegustu sviðsmynd um framtíðarsjóðstreymi og ávöxtunarkröfu sem er leiðrétt vegna óvissu í sjóðstreyminu, en nota þess í stað aðferð vænts sjóðstreymis, þar sem tekið er tillit til óvissu um framtíðarsjóðstreymi með því að nota fleiri líkindavegnar sviðsmyndir um framtíðarsjóðstreymi í stað þess að leiðrétta ávöxtunarkröfuna vegna hennar.

Í þeim tilvikum þegar virðisrýrnunarpróf skipta máli fyrir notendur ársreikninga þarf að birta viðeigandi og fullnægjandi  upplýsingar um framkvæmd virðisrýrnunarprófa, þ.m.t. um aðferðir, forsendur og næmi prófanna fyrir breytingum á forsendum.

UPPLÝSINGAGJÖF Í SKÝRSLU STJÓRNAR
Um skýrslu stjórnar er fjallað í VI. kafla ársreikningalaga. Ríkari kröfur eru gerðar um upplýsingagjöf stærri félaga en þeirra smærri og enn ríkari kröfur til félaga sem flokkast sem einingar tengdar almannahagsmunum sem alltaf teljast til stórra félaga. Í ársreikningum allra félaga þurfa skilyrði 65. gr. laganna að vera uppfyllt. Samkvæmt þeirri grein ber félögum meðal annars að gera grein fyrir þróun í starfsemi sinni og fjárhagsstöðu, atriðum sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu félagsins og afkomu þess á reikningsárinu og ekki koma fram í efnahagsreikningi eða rekstrarreikningi eða skýringum með þeim sem og  mögulegri óvissu við mat eða óvenjulegar aðstæður sem kunna að hafa áhrif á félagið. Eftir því sem við á skal tilgreina fjárhæðir. Þá segir í sömu grein að leiki vafi á rekstrarhæfi skuli gera grein fyrir því í skýrslu stjórnar.

Samkvæmt 66. gr. laganna þurfa meðalstór félög, stór félög og einingar tengdar almannahagsmunum að veita ýmsar viðbótarupplýsingar um árangur, áhættu og óvissuþætti. Þannig segir að til viðbótar þeim upplýsingum sem krafist er skv. 65. gr. skuli skýrsla stjórnar þeirra félaga sem hér um ræðir veita glöggt yfirlit yfir árangur í rekstri félagsins, stöðu þess og þróun ásamt lýsingu á megináhættu og óvissuþáttum sem það stendur frammi fyrir. Þá skal skýrsla stjórnar, eftir því sem við á, hafa að geyma tilvísanir til fjárhæða sem settar eru fram í ársreikningi og frekari skýringar á þeim. Eftir því sem við á skal jafnframt fjalla um ýmis önnur atriði sem talin eru upp í greininni. Eitt þeirra er að greina frá áhrifum ytra umhverfis á félagið og ráðstafanir sem hindra, draga úr eða bæta tjón sem félagið verður fyrir.

ÁHERSLUATRIÐI Í EFTIRLITI ÁRSREIKNINGASKRÁR
Við eftirlit með ársreikningum fyrir árið 2020 mun ársreikningaskrá leggja áherslu á að skoða hvort í ársreikningum sé með fullnægjandi hætti gerð grein fyrir því hvaða áhrif heimsfaraldurinn hefur haft á reikningsskil félaga, þ.m.t. upplýsingagjöf í skýrslu stjórnar. Þetta á við hvort heldur sem ársreikningar eru gerðir samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða lögum um ársreikninga.

Ársreikningskrá hefur bent á að stjórnendur félaga bera ábyrgð á því að reikningsskilin innihaldi fullnægjandi upplýsingar vegna áhrifa COVID-19 á rekstur, stöðu og sjóðstreymi viðkomandi félags. Jafnframt hefur ársreikningaskrá bent á að vegna þess ástands sem hefur myndast vegna áhrifa af COVID-19 faraldrinum á efnahagslífið sé ljóst að mikil óvissa ríki um áhrif á afkomu, fjárhagsstöðu og sjóðstreymi einstakra félaga og að gagnsæi í upplýsingagjöf sé lykilatriði í að auka traust fjárfesta, lánardrottna og annarra haghafa á þeim upplýsingum sem birtar eru í reikningsskilum.

Við eftirlit með ársreikningum félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum mun ársreikningaskrá jafnframt fara eftir áhersluatriðum í eftirliti sem Verðbréfaeftirlit Evrópu (ESMA) gaf út í október 2020. Í 14 blaðsíðna tilkynningu ESMA er COVID-19 nefnt 34 sinnum svo ljóst er að ESMA, og þar með ársreikningaskrá á Íslandi, leggur ríka áherslu á að áhrif faraldursins komi skýrt fram í ársreikningum félaga sem beita alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum. Meðal þess sem ESMA bendir á er að áhrif faraldursins kunni að koma fram við beitingu IAS 1 Framsetning reikningsskila, IAS 36 Virðisrýrnun eigna, IFRS 9  Fjármálagerningar, IFRS 7 Fjármálagerningar: upplýsingagjöf og IFRS 16 Leigusamningar.

NIÐURLAG
Eins og hér hefur verið reifað getur COVID-19 heimsfaraldurinn haft margvísleg áhrif á ársreikninga fyrir árið 2020. Það er því að ýmsu að hyggja og nauðsynlegt að greina áhrifin tímanlega og vanda til verka til að tryggja að ársreikningar uppfylli allar kröfur sem til þeirra eru gerðar. 

                                                                                                                       Jóhann I. C. Solomon og Unnar Friðrik Pálsson

FLE blaðið, janúar 2021 1. tbl, 43. árg.