Hinn 2. júní sl. voru samþykktar breytingar á lögum um ársreikninga sem komu til framkvæmda 1. janúar 2016. Með framangreindri lagabreytingu voru gerðar verulegar breytingar á lögum um ársreikninga en í þessari grein verður aðeins fjallað um einn anga af breytingunum, þ.e. takmarkanir á arðgreiðslum.

Arðsúthlutun takmörkuð

samkvæmt lögum um ársreikninga
Jóhann Unnsteinsson, löggiltur endurskoðandi hjá Ernst&Young

Hinn 2. júní sl. voru samþykktar breytingar á lögum um ársreikninga sem komu til framkvæmda 1. janúar 2016. Með framangreindri lagabreytingu voru gerðar verulegar breytingar á lögum um ársreikninga en í þessari grein verður aðeins fjallað um einn anga af breytingunum, þ.e. takmarkanir á arðgreiðslum. Það er athyglisvert að möguleikar fyrirtækja til að greiða arð til eigenda skuli takmarkaðir í lögum um ársreikninga en hingað til hafa reglur varðandi arðsúthlutanir eingöngu verið í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög.

Samkvæmt 16. gr. laganna er félögum sem eignfæra þróunarkostnað gert að færa sömu fjárhæð af óráðstöfuðu eigin fé á sérstakan lið meðal eigin fjár sem óheimilt er að úthluta arði af. Þennan lið skal síðan leysa upp eftir því sem þróunarkostnaðurinn er afskrifaður, seldur eða tekinn úr notkun. Þróunarkostnað skal afskrifa á nýtingartíma hans eða á 10 árum ef ekki er hægt að skilgreina nýtingartímann.

Takmörkun á arðgreiðslu er einnig að finna í lögunum er varðar færslu eignarhluta í dóttur- og hlutdeildarfélögum. Meginregla laganna varðandi færslu eignarhluta í dóttur- og hlutdeildarfélögum er að færa skal þessa eignarhluti samkvæmt hlutdeildaraðferð í samræmi við hlutdeild í eigin fé. Þegar hlutdeildaraðferð er beitt skal hlutdeild móðurfélagsins í rekstrarárangri færð til tekna eða gjalda sem áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga í rekstrarreikningi. Móttekinn arður vegna eignarhluta í félagi, sem meðhöndlaður er samkvæmt hlutdeildaraðferð, skal færður til lækkunar á eignarhlut í því. Nemi hlutdeild sem færð er í rekstrarreikningi hærri fjárhæð en sem nemur mótteknum arði eða þeim arði sem ákveðið hefur verið að úthluta, skal mismunurinn færður á bundinn hlutdeildarreikning á meðal eigin fjár. Sé hlutdeild í dóttur- eða hlutdeildarfélagi seld eða afskrifuð skal leysa hlutdeildarreikning upp og færa breytinguna á óráðstafað eigið fé eða ójafnað tap. Þannig er óheimilt að úthluta arði vegna hagnaðar af dóttur- og hlutdeildarfélögum nema að því marki sem móðurfélagið hefur móttekið arð frá sömu félögum. Hins vegar er óljóst hvort mynda skuli neikvæðan eiginfjárreikning ef um taprekstur er að ræða eða ef úthlutaður arður er meiri en hagnaður af dóttur- og hlutdeildarfélögum. Ef um flóknara eignarhald er að ræða getur skipt máli í hvaða tímaröð ákvörðun um arðsúthlutun er tekin. Dæmi um það er ef móðurfélag á dótturfélag sem síðan á hlutdeildarfélag. Til að móðurfélagið megi úthluta arði vegna hagnaðar í hlutdeildarfélaginu þarf fyrst að ákveða arðgreiðslu í hlutdeildarfélaginu, síðan í dótturfélaginu og að lokum í móðurfélaginu.

Reglur laganna varðandi flokkun, mat og færslu matsbreytinga vegna fjáreigna og fjármálagerninga eru ekki nægilega skýrar. Í 2. gr. laganna eru helstu hugtökin skilgreind, en þó vantar skilgreiningu á hugtakinu fjáreign til sölu. Túlkun ársreikningaskrár á flokkun fjármálagerninga er eftirfarandi:

Fjáreignir greinast annars vegar í fjáreignir á gangvirði í gegnum rekstur og hins vegar fjáreignir til sölu. Fjáreignir á gangvirði í gegnum rekstur skiptast í annars vegar fjáreignir tilgreindar á gangvirði í gegnum rekstur við upphaflega skráningu og hins vegar veltufjáreignir. Veltufjáreignir eru skilgreindar sem fjáreignir sem hafa verið keyptar í þeim tilgangi að hagnast á skammtímaverðbreytingum eða á miðlaraþóknun.

Fjallað er um færslu á breytingum á virði fjármálagerninga og skuldbindinga í 38. gr. laganna. Þar kemur fram að færa skuli sömu fjárhæð vegna matsbreytinga á fjáreignum tilgreindum á gangvirði við upphaflega skráningu af óráðstöfuðu eigin fé á gangvirðisreikning á meðal eigin fjár sem óheimilt sé að úthluta arði af að teknu tilliti til skattaáhrifa eftir því sem við á. Í sömu grein kemur fram að matsbreytingar á fjáreignum til sölu skuli færa beint á gangvirðisreikning á meðal eigin fjár.

Engin ákvæði eru hins vegar um hvernig skuli fara með veltufjáreignir í reikningsskilum. Að því gefnu að veltufjáreign sé fjármálagerningur sem falli undir fjáreign á gangvirði í gegnum rekstrarreikning er heimilt að meta veltufjáreignir á gangvirði. Engin takmörkun er í lögunum á arðsúthlutun vegna gangvirðisbreytinga á veltufjáreignum.

Um verulegar takmarkanir getur verið að ræða á heimild fyrirtækja til arðsúthlutunar frá því sem áður var, sérstaklega eignarhaldsfélaga og fjárfestingarfélaga. Sömuleiðis getur möguleiki félaga, sem fjárfesta í þróunarkostnaði, til arðsúthlutunar verið töluvert skertur vegna framangreindra breytinga á lögum um ársreikninga.

Sjá greinina í Mbl. hér.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 26. janúar 2017