Breytingarnar kalla á aukin samskipti milli endurskoðunarnefnda og endurskoðenda og umræður um upplýsingar sem koma fram í áritun endurskoðanda

Áritun endurskoðenda – breytingar framundan

Auður Ósk Þórisdóttir löggiltur endurskoðandi og hluthafi hjá KPMG

Stundum hefur heyrst sú skoðun fjárfesta að áritun endurskoðenda mætti innihalda meiri upplýsingar. Upplýsingar um ábyrgð endurskoðenda mættu vera ítarlegri og gott væri að hafa meiri upplýsingar um hvað aðgerðir þeirra fólu í sér og hvaða liði í ársreikningnum þeir töldu ástæðu til að skoða betur en aðra. Framundan eru breytingar á alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum sem eru til þess fallnar að koma til móts við þessar óskir um meiri upplýsingar.

Breytingar á endurskoðunarstöðlunum munu ekki fela í sér breytingar á umfangi endurskoðunar en þær munu gefa endurskoðendum tækifæri til að gefa notendum ársreikninga meiri innsýn inn í þær aðgerðir sem felast í endurskoðun og auka gagnsæi.

Hvað fela breytingarnar í sér? Samkvæmt hinum breyttu stöðlum verður gerð sú krafa að endurskoðendur skráðra félaga upplýsi um hvaða liði í ársreikningi viðkomandi félags þeir lögðu áherslu á og hvaða aðgerðir þeir framkvæmdu við skoðun þessara liða. Einnig er gerð krafa um ítarlegri upplýsingar um ábyrgð endurskoðenda annars vegar og ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra hins vegar. 

Á hverja hafa breytingarnar áhrif? Endurskoðendur bera auðvitað fyrst og fremst ábyrgð á innleiðingu breytinganna en breytingarnar hafa áhrif á fleiri hagsmunaaðila og má þar helst nefna fjárfesta og endurskoðunarnefndir.

Fjárfestar munu hafa aðgang að upplýsingum sem þeir höfðu ekki áður. Upplýsingarnar geta nýst við mat á einstökum fyrirtækjum og einnig í samanburði milli fyrirtækja. Þá geta upplýsingarnar einnig nýst við mat á gæðum endurskoðunar einstakra fyrirtækja.

Breytingarnar kalla á aukin samskipti milli endurskoðunarnefnda og endurskoðenda og umræður um upplýsingar sem koma fram í áritun endurskoðenda. Endurskoðunarnefndir þurfa einnig að huga að því hvort uppfæra þurfi upplýsingar í ársreikningum til að koma í veg fyrir að áritun endurskoðenda feli í sér meiri upplýsingar um einstaka liði en koma fram sjálfum ársreikningnum.

Við innleiðingu á breytingum á áritunum hefur í sumum tilvikum verið gengið lengra en kröfur alþjóðlegu staðlanna gera ráð fyrir. Dæmi um slíkt er Bretland sem innleiddi breytingar á áritunum árið 2013 og einnig ganga kröfur Evrópusambandsins
(ESB) lengra en kröfur alþjóðlegu staðlanna. Sem dæmi um viðbótarkröfur ESB má nefna að greina skal frá niðurstöðum endurskoðenda eftir skoðun þeirra á helstu liðum ársreikningsins. ESB gerir einnig kröfu um að upplýsa um áhersluatriði við endurskoðun allra eininga tengdra almannahagsmunum meðan krafa alþjóðlegu staðlanna nær einungis til skráðra félaga.

Í Bretlandi hafa viðbrögð notenda ársreikninga og eftirlitsaðila við ítarlegri upplýsingum í áritunum endurskoðenda verið mjög jákvæð. Í niðurstöðum kannana eftirlitsaðila kemur fram að jákvætt viðhorf og stuðningur allra hagsmunaaðila við innleiðinguna er lykilatriði til árangurs. Þar kemur einnig fram að mikilvægt sé að huga að þessum breytingum tímanlega í endurskoðunarferlinu í samvinnu við stjórnendur og stjórn fyrirtækja og endurskoðunar-nefndir. Mikilvægt sé fyrir endurskoðendur að greina með skýrum hætti frá nálgun sinni á helstu áherslum í endurskoðuninni og að þeir setji sig í spor notenda ársreikningsins við framsetningu upplýsinganna.

Framangreindar breytingar á alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum taka gildi í lok árs 2016 en heimilt er að innleiða breytingarnar fyrr.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 3. september 2015 bls. 12.

03.09.2015