Nú um áramótin tóku gildi breytingar á alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum sem hafa þau áhrif að áritun endurskoðenda á reikningsskil breytist talsvert og verður breytingin vonandi til þess að auka gagnsemi endurskoðunar enn frekar. Þessi breyting kemur í kjölfarið á því að notendur reikningsskila hafa kallað eftir meiri upplýsingum en hin staðlaða áritun hefur falið í sér og vilja vita meira um það hverjar eru áherslur endurskoðenda við endurskoðun og hvernig var brugðist við þeim.

Aukið gagnsæi í áritun endurskoðenda

Margrét Pétursdóttir, endurskoðandi hjá Ernst og Young ehf. og formaður FLE

Nú um áramótin tóku gildi breytingar á alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum sem hafa þau áhrif að áritun endurskoðenda á reikningsskil breytist talsvert og verður breytingin vonandi til þess að auka gagnsemi endurskoðunar enn frekar. Þessi breyting kemur í kjölfarið á því að notendur reikningsskila hafa kallað eftir meiri upplýsingum en hin staðlaða áritun hefur falið í sér og vilja vita meira um það hverjar eru áherslur endurskoðenda við endurskoðun og hvernig var brugðist við þeim. Uppröðunin á árituninni er að breytast þannig að álitið er nú fremst í árituninni, í stað þess að vera aftast, og ýmsar orðalagsbreytingar og viðbætur eru komnar í áritunina. Meginbreytingin felst samt í því að nú ber endurskoðendum skráðra félaga að bæta við nýjum kafla í áritunina. Þessi kafli heitir á ensku „key audit matters“ sem hefur verið þýtt sem lykilatriði við endurskoðun. Þessa breytingu tel ég af hinu góða og að mínu mati eingöngu byrjun á þróun sem á eftir að verða í upplýsingagjöf til lesenda reikningsskila.

Það sem helst gæti dregið úr gagnsemi þessara breytinga er einkum tvennt. Í fyrsta lagi að þessi hluti áritunarinnar nái ekki athygli notenda reikningsskilanna og verði hreinlega ekki lesinn. Ég nefni það fyrst því aðrar breytingar á árituninni hafa orðið til þess að hún hefur lengst og er staðlaður hluti hennar nú, án áðurnefndra lykilatriða, orðinn tvær blaðsíður í stað einnar áður. Vegna aukinnar lengdar áritunarinnar er hætt við því að lykilatriðin týnist í árituninni, þ.e. að skógurinn muni ekki sjást fyrir trjánum. Í öðru lagi er hætta á því að áritanirnar verði ekki nægjanlega sértækar fyrir hið tiltekna félag, þ.e. að orðalag í þeim verði með of almennum hætti þannig að ekki verði um næga aðgreiningu að ræða á milli félaga í sömu atvinnugrein. Til að mynda hafa allar áritanir sem ég hef séð fyrir reikningsskil banka í Bretlandi innihaldið umfjöllun um niðurfærslu útlána. Munu þá allar áritanir á fasteignafélög innihalda svipað orðalag um virðismat fasteigna og allar áritanir á framleiðslufélög innihalda svipað orðalag um birgðaverðmæti? Orðalagið er að sjálfsögðu ekki hið sama í öllum áritununum bresku bankanna en samt keimlíkt. Nú er ábyrgð endurskoðenda að vera hugrakkir í frásögn sinni og skrifa sértækan og lýsandi texta í hverju tilviki fyrir sig og ábyrgð lesenda er síðan að lesa þann texta vandlega og einnig þær skýringar í reikningsskilunum sem vísað er til.

Þessa dagana eru að líta ljós fyrstu áritanirnar skv. þessum nýju stöðlum og það er athyglisvert að skoða lykilatriði endurskoðunar í reikningsskilum stóru viðskiptabankanna þriggja en þeir hafa nú allir birt ársreikning vegna ársins 2016.

Landsbankinn - í áritun endurskoðanda hafa tvö lykilatriði verið greind en þau eru:

  • Útlánaáhætta, virðisrýrnun útlána og mat á áhrifum dóma Hæstaréttar vegna gengistryggðra lána.
  • Mat á þriðja þreps fjáreignum (e. „Level 3 financial assets“)

Arion banki - í áritun endurskoðanda hafa verið tilgreind þrjú lykilatriði en þau eru:

  • Mat útlána og virðisrýrnun
  • Innlausn tekna (vaxta- og þóknunartekjur þar tilgreindar)
  • Tölvuumhverfi

Íslandsbanki - í áritun endurskoðanda hefur eitt lykilatriði verði tilgreint en það er:

  • Mat á virðisrýrnun útlána

Í áritununum er byrjað á því að tilgreina hvers vegna endurskoðandinn telur að um lykilatriði sé að ræða og síðan fylgir umfjöllun um viðbrögð endurskoðandans. Í flestum tilvikum er síðan vísað til skýringa sem þegar eru hluti af ársreikningi bankans til frekari upplýsinga um liðinn sjálfan.

Endurskoðendur eiga eftir að þróa vinnubrögð við þessa nýju áritun en það er ekki hægt að segja annað en að þetta byrji vel þar sem töluverður munur er á því hver endurskoðandinn telur vera lykilatriði og áritanirnar eru sértækar varðandi hvern banka.

Til frekari glöggvunar eru mörg félög á hlutabréfamarkaði búin að birta ársreikning sinn og innifela áritanir endurskoðenda þeirra allra umfjöllun um lykilatriði sem getur verið gagnlegt fyrir lesendur að glöggva sig á, en endurskoðanda ber að tilgreina í áritun sinni ef hann telur ekki um neitt lykilatriði vera að ræða.

Eins og áður segir tel ég að þetta sé framfaraskref og það verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig lesendur taka þessari breytingu.

Sjá grein hér. 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 2. mars 2017
02.03.2017