Það mat ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar að ríkisskattstjóra séu í nær öllum tilfellum heimil sex ár til að rannsaka ef hann telur sig þurfa að kalla eftir frekari upplýsingum og gögnum í máli er óskiljanlegt með hliðsjón af niðurstöðu dómsins.

Bíddu! Er ekki til einhver tveggja ára regla?

Stefán Þ. Björnsson löggiltur endurskoðandi hjá Ernst og Young ehf.

Undanfarin ár hefur aðilum sem kæra úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar ekki reynst happadrjúgt að vísa til þess að ríkisskattstjóri hafi einungis tvö ár til að endurákvarða álagningu sína. Lagaákvæðið um endurákvörðun er 97. gr. tekjuskattslaga og er svohljóðandi: 

„Heimild til endurákvörðunar skatts skv. 96. gr. nær til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. 

Hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág …“

Af þeim úrskurðum sem hægt er að nálgast á vef yfirskattanefndar og vísa í ákvæðið árin 2014 og 2015 var í öllum tilfellum úrskurðað aðilum í óhag. Skattasérfræðingar eru jafnvel hættir að láta reyna á þetta ákvæði.

Svo þröng er túlkun skattyfirvalda orðin á ákvæðinu að þau telja sig hafa sjálfkrafa sex ár til að rannsaka, ef þau telja að sig þurfa spyrja nánar út í eitthvað atriði eða kalla eftir grunnskjölum. Tveggja ára reglan í lögunum er því orðin óþörf. Til að falla undir ákvæðið þá virðist vera að aðilar þurfi ávallt að senda inn allt bókhald sitt og fylgiskjöl til skattyfirvalda. Ef það er orðin opinber afstaða skattyfirvalda þá væri eðlilegt að veita leiðbeiningar um það hvert þeir vilja fá bókhald skattaðila landsins. Myndi það vafalaust losa um nokkrar geymslur í bænum.

Rökstuðningur skattyfirvalda, ríkisskattstjóra sem og yfirskattanefndar er vafasamur og jafnvel grátbroslegur. Nokkrir dómar Hæstaréttar Íslands hafa tekið á þessu lagaákvæði en skattyfirvöld vísa enn í dag oft í dóm H 1996:470, sem er númer 15 það ár, um túlkun á því hvað teljast fullnægjandi upplýsingar.

Skattyfirvöld hafa greinilega aldrei lesið dóminn, því í honum segir: „Með hliðsjón af þeim gögnum sem fylgdu skattframtölum sóknaraðila nefnd gjaldár, þar sem m.a. kom skýrt fram, að sérstakur sjóður hafði verið myndaður til að mæta skuldbindingum vegna eftirlaunaréttar starfsmanna sóknaraðila …“ og svo síðar „Engar athugasemdir voru þó gerðar af hans hálfu við færslu eftirlaunaskuldbindinga á skatt-framtölum sóknaraðila fyrr en árið 1993. Verður því að telja með skírskotun til ofangreinds og vísan til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, að skattstjóra hafi ekki verið heimilt að endurákvarða sóknaraðila skatt nema vegna opinberra gjalda gjaldáranna 1992 og 1993.“

Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrir lágu engin grunngögn, ekki tiltekin gögn eða skýringar sem skattstjórinn í Reykjavík taldi sig þurfa. Það sem lá fyrir var gjaldfærsla á framtali og lýsing á henni í ársreikningi félagsins. Þrátt fyrir það var talið að upplýsingar hefðu verið skýrar og óyggjandi fyrir skattstjóra til að úrskurða um skatt. Skattstjóra var því óheimilt, samkvæmt dómi Hæstaréttar, að endurákvarða gjöld nema til tveggja síðustu ára.

Það mat ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar að ríkisskattstjóra sé í nær öllum tilfellum heimil sex ár til að rannsaka ef hann telur sig þurfa að kalla eftir frekari upplýsingum og gögnum í máli er óskiljanlegt með hliðsjón af niðurstöðu dómsins. Það öfgafulla mat starfsmanna skattyfirvalda hefur gert lagaákvæðið um tveggja ára regluna óþarft að ósekju. Ef starfsmenn skattyfirvalda myndu lesa þá dóma sem þeir vísa í og úrskurða í samræmi við þá, ætti tveggja ára reglan í einhverjum tilfellum að gilda.

Nálgast má greinina á www.mbl.is

 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 26.nóv. 2016