Mikil eftirspurn hefur verið úr atvinnulífinu eftir löggiltum endurskoðendum af endurskoðunarstofum vegna þekkingar þeirra og því er áskorun fyrir stéttina að halda jafnvægi með því að jafna út vinnuálag innan endurskoðunarstofanna og þeirra sem starfa annars staðar á vinnumarkaði.

Endurskoðun er skemmtileg

Eymundur Sveinn Einarsson

Hljómar ekki trúverðugt eða í besta falli sem ákveðinn ómöguleiki en þannig er þetta nú samt. Hins vegar er ég sem löggiltur endurskoðandi nokkuð hugsi um framtíð þessarar lifandi og fjölbreyttu stéttar. Þrátt fyrir töluverða nýliðun í stéttinni þá virðist hún því miður ekki skila sér í inn á endurskoðunarstofur. Samkvæmt yfirliti úr ársskýrslum Félags löggiltra endurskoðenda fækkar endurskoðendum sem störfuðu við endurskoðun úr um 260 í um 230 frá árinu 2016 til ársins 2021. Ein helsta hindrunin eru ekki einungis löggildingarprófin sem slík heldur einnig tímalínan að þeim.

Að loknu BS-námi í viðskiptafræði þarf að ljúka meistaraprófi í endurskoðun og reikningsskilum. Eftir að hafa unnið sem nemi undir handleiðslu löggilts endurskoðanda gefst viðkomandi loks kostur á að þreyta löggildingarpróf í faginu. Umrædd próf eru haldin einu sinni á ári og þarfnast yfirleitt töluverðrar yfirlegu. Nemar nýta oft sumarleyfi sín til próflestrar auk launalausra eða launaðra leyfa eftir atvikum. Ekki er gefið að próftökum takist að ná prófi í fyrsta sinn þannig að raunverulega hafa oft liðið mörg ár frá útskrift úr BSnáminu þangað til löggildingu er náð eða þegar viðkomandi gefst upp á baráttunni og fer í annað.

Það verður að stytta tímann frá því tekin er ákvörðun um að leggja endurskoðun fyrir sig þangað til löggildingu er náð og gera þennan feril hnitmiðaðri frá því sem nú er. Breytingar á samfélagsgerð hafa einnig haft sín áhrif. Ungt fólk á vinnumarkaði er ekki lengur tilbúið til að vinna langa vinnudaga, fórna helgum, sumarfríum og fjölskyldulífi fyrir starfið. Þrátt fyrir nýjungar á rafrænum lausnum innan fagsins er það því miður enn staðreynd að vinnuálag stéttarinnar er að töluverðu leyti enn árstíðabundið með ákveðnu „vertíðar“-fyrirkomulagi.

Þetta fyrirkomulag er í sífelldu endurmati innan stéttarinnar en gengur hægt. Ég tel að með breytingum á vinnufyrirkomulagi felist gríðarleg áskorun til stéttarinnar og umhverfis hennar en ljóst er að mun lengra þarf að ganga til þess að aðlagast þeim kröfum sem gert er til starfsumhverfis í dag. Atvinnuöryggi stéttarinnar er stöðugt, sama hvernig árar og hefur þótt kostur við starfið. Hvort sem efnahagslífið sýnir kreppueinkenni eða er í vexti þá virðist alltaf vera þörf fyrir endurskoðendur og sérfræðiþjónustu þeirra.

Að baki réttindunum liggur oft mikil reynsla og þekking úr hinum ýmsu geirum atvinnulífsins enda koma endurskoðendur víða við í starfi sínu. Mikil eftirspurn hefur verið úr atvinnulífinu eftir löggiltum endurskoðendum af endurskoðunarstofum vegna þekkingar þeirra og því er áskorun fyrir stéttina að halda jafnvægi með því að jafna út vinnuálag innan endurskoðunarstofanna og þeirra sem starfa annars staðar á vinnumarkaði.

Auknar kröfur til endurskoðenda koma úr mörgum áttum. Fjölbreytt og síbreytilegt landslag viðskipta kallar t.d. á breytta og aukna löggjöf. Innan frá eru lög um endurskoðendur og endurskoðun í sífelldri endurnýjun og kröfur um tímanleg skil á gögnum til skattyfirvalda gera starfið oftar en ekki flóknara. Endurskoðendur eru sérfræðingar og koma fram sem slíkir enda má ekki gleyma því að starfið er krefjandi en jafnframt fjölbreytt. Sífelldar áskoranir og margvísleg verkefni eru á borðum okkar og eiga staðalímyndir um endurskoðendur sem baunateljara einfaldlega ekki við.

Ég tel að lausnin á fækkun í stétt löggiltra endurskoðenda sé ekki að slaka á kröfum til löggildingar í faginu en núverandi kerfi hvað varðar nýliðun í stéttinni sé komið á endastöð. Þrjú nokkurra klukkutíma löggildingarpróf sem haldin eru einu sinni á ári er ekki réttur mælikvarði á hæfni einstaklinga til að gegna þessu mikilvæga starfi. Ég hvet þá, sem velta fyrir sér að starfa sem löggiltir endurskoðendur í framtíðinni, að kynna sér starfið vel og hvað réttindin sem slík hafa upp á að bjóða. Staðreyndin er sú að það er gaman í vinnunni.

Mbl Viðskiptablaðið