Félagsmenn Félags löggiltra endurskoðenda eru nú um 400 talsins. Af þeim starfar um þriðjungur utan hefðbundinna endurskoðunarstarfa.

Fjölbreyttir starfsmöguleikar endurskoðenda

H. Ágúst Jóhannesson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG

Félagsmenn Félags löggiltra endurskoðenda eru nú um 400 talsins. Af þeim starfar um þriðjungur utan hefðbundinna endurskoðunarstarfa. Þeir félagsmenn sem það kjósa, hafa tekið sér fyrir hendur fjölbreytt störf þar sem þekking og reynsla úr endurskoðunarnáminu hefur komið þeim að góðu gagni.
Nám fyrir réttindi til endurskoðunarstarfa er langt og strangt en um leið fjölbreytt. Allir sem hafa fetað þá leið eru sammála um að menntunin og starfsnámið sem þreyta þarf, sé gagnlegur þekkingargrunnur til að takast á við fjölbreytt verkefni og byggja upp árangursríkan starfsferil í heimi viðskipta. Það á við hvort heldur sem viðkomandi kýs að velja endurskoðun sem ævistarf eða leita fanga í öðrum störfum.

Á meðan á meistaranámi í endurskoðun stendur og eftir að því lýkur þarf að takast á við strangt starfsnám undir handleiðslu þeirra sem hafa menntun til endurskoðunarstarfa. En skilyrði fyrir að fá að þreyta próf til löggildingar endurskoðunar er að hafa lokið 3ja ára starfsnámi á endurskoðunarstofu. Á þeim tíma gefst fólki tækifæri á að takast á við margvísleg verkefni og öðlast góða reynslu.

Hér á landi hafa verið innleiddir alþjóðlegir reikningsskila- og endurskoðunarstaðlar, sem endurskoðendur þurfa að tileinka sér. Samstarf og það að geta leitað í smiðju erlendra kollega auðveldar innleiðingu á þessum stöðlum. Mörg innlend endurskoðunarfyrirtæki eru í alþjóðlegu samstarfi og býðst starfsfólki þeirra aðgangur að fólki frá öllum heimsálfum með mikla þekkingu á framangreindum stöðlum og öðru því sem þarf að tileinka sér í endurskoðunarstarfinu. Þannig er tekist á við krefjandi alþjóðleg verkefni meðan á starfsnámi stendur. Það skapast alþjóðleg þekking og færni og einstaklingar öðlast reynslu og mynda sambönd við fjölbreyttan hóp fólks sem starfar við hin ýmsu verkefni á sviði viðskipta í ólíkum löndum. Þegar upp er staðið er viðskiptaheimurinn ekki svo stór og tengsl innan hans ómetanleg.

Þá geta Íslendingar sótt sér starfsnám hjá alþjóðlegum endurskoðunarfyrirtækjum, nýtt sér þekkingu og tengsl hvort sem þeir kjósa að verja starfsævinni erlendis, eða hér á landi. Slíkt er ómetanlegt og opnar fólki fjölbreytta möguleika og tækifæri. Það eru alltaf einhverjir sem nýta sér þessi tækifæri og að jafnaði starfa í kringum 2-3% félagsmanna erlendis. „Sá einn veit er víða ratar og hefir fjöld um farið...“ segir í Hávamálum. Þá eru líka mörg dæmi um að fólk hafi nýtt sér tækifærin til að starfa í nýju umhverfi og takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni í gegn um alþjóðleg tengsl endurskoðunarfyrirtækja.

Námsmöguleikar fólks hafa sjaldan verið meiri og úr vöndu er að ráða þegar tekin er ákvörðun um framtíðar starfsmöguleika. Það er ástæða til að hvetja ungt fólk til að huga að endurskoðunarnámi þegar tekin er ákvörðun um framhaldsnám. Endurskoðunarnámið opnar fjölbreytta möguleika við leitina að framtíðarstarfi. Starfsmöguleikar endurskoðenda eru góðir og ættu að vera fólki hvatning til að takast á við krefjandi og skemmtilegt starf, hvernig svo sem það kýs að nýta sér námið til framtíðar.

Hér má nálgst greinina sem birtist 2. sept. 2016 á Mbl. 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 2. sept. 2016
02.09.2016