Miðað við tölulegar upplýsingar frá almanaksárinu 2010 skilaði flugrekstur 102,2 milljörðum króna til vergrar landsframleiðslu (VLF) og var 6,6% af henni … en það var þá hæsta hlutfall meðal landa heims.

Flugvélaleiga og skattar

Símon Þór Jónsson meðeigandi á skatta- og lögfræðisviði Deloitte

Íslendingar eru flugþjóð. Umfang flugs á Íslandi er staðreynd sem ekki allir gera sér grein fyrir. Miðað við tölulegar upplýsingar frá almanaksárinu 2010 skilaði flugrekstur 102,2 milljörðum króna til vergrar landsframleiðslu (VLF) og var 6,6% af henni, samkvæmt skýrslu sem unnin var af Oxford Economics um áhrif flugstarfsemi á íslenskt efnahagslíf, en það var þá hæsta hlutfall meðal landa heims. Það kæmi ekki á óvart ef þetta hlutfall hefði hækkað nokkuð á árunum 2011-2014.

Flugvélaleiga er stór þáttur í flugrekstri. Á hverri stundu má gera ráð fyrir að á flugi í háloftunum séu kringum 20.000 stórar þotur sem ýmist flytja farþega eða frakt. Þar af má gera ráð fyrir að um 8.000 þeirra séu leigðar. Af þessum 8.000 leigðu þotum sem nú eru í loftinu á hverri stundu má gera ráð fyrir að um helmingur sé leigður frá írskum félögum, en níu af tíu stærstu flugvélaleigufélögum heimsins eru írsk. Forysta Íra á þessu sviði hefur verið rakin til Ryanair sem stofnað var 1985 og stofnanda þess, Tony Ryan, sem sagður hefur verið upphafsmaður nútímaflugvélaleigu.

Það liggur í eðli fyrirtækja sem leigja frá sér flugvélar til flutninga á alþjóðaleiðum, að starfsemi þeirra hefur snertiflöt við fjölmargar lögsögur. Leigutakar eru flugfélög með heimilisfesti í ýmsum ríkjum. Það þarf því að huga að lagaumhverfinu í viðkomandi ríki hverju sinni. Skattar, sem eru ólíkir á milli ríkja, skipta miklu máli og geta haft verulega fjárhagslega þýðingu fyrir leigusamninginn.

Sérfræðiþekking á skattalögum viðkomandi ríkis er því nauðsynleg. Skoða þarf hvort skattar verði dregnir af leigugjaldinu þegar það er greitt frá ríki leigutakans til ríkis leigusalans, hvort leigustarfsemi leigusalans í ríki leigutakans sé slík að hún myndi svokallaða fasta starfsstöð og sé skattskyld þar sem slík, skoða þarf virðisaukaskatt, stimpilgjöld og fleira. Þá er ekki óalgengt að leigu á flugvél fylgi möguleiki á að kaupa hana og jafnvel gert ráð fyrir því í sama samningi, og þá þarf að skoða umrædda skatta í tengslum við slík viðskipti og einnig skattalegar fyrningar og fleira. Ef skattalög víkja frá reikningsskilastöðlum þá þarf sá munur að liggja fyrir. Þá þarf að huga að því hvort fyrir liggi tvísköttunarsamningur á milli viðkomandi ríkja og þá hvaða áhrif hann hefur.

Það eru ekki mörg fyrirtæki á heimsvísu sem geta boðið sérfræðiþekkingu á skattalögum í öllum helstu ríkjum heims. Deloitte er eitt þessara fyrirtækja, með skrifstofur í meira en 150 ríkjum. Hjá Deloitte er meðal annars til staðar tengslanet sérfræðinga um flugvélaleigu og skatta, þar sem tengiliðurinn í hverju ríki er sérfræðingur í sköttum síns ríkis sem tengjast flugvélaleigu. Fyrir liggur gagnagrunnur með svörum hvers tengiliðar við helstu skattaspurningum sem upp koma þegar flugvél sem ætluð er til flutninga á alþjóðaleiðum er leigð til viðkomandi ríkis. Þannig getur hver tengiliður nálgast svör við helstu álitaefnum á þessu sviði, í hvaða ríki sem er. Ef viðbótarráðgjöf er nauðsynleg er haft samband við viðkomandi tengilið. Undirritaður er tengiliður hjá Deloitte á Íslandi og getur því með þessum hætti þjónustað íslensk félög, sem leigja flugvél til leigutaka í erlendri lögsögu, eða erlend leigufélög, sem leigja flugvél til leigutaka á Íslandi.

Alþjóðleg skattaráðgjöf á sviði flugvélaleigu er bara eitt dæmi um styrk alþjóðlegs fyrirtækis eins og Deloitte þegar um staðbundna eða ríkjabundna þekkingu er að ræða eins og lög einstakra ríkja. Annað dæmi er alþjóðleg skattaráðgjöf á sviði skipaleigu til flutninga á alþjóðaleiðum, en óhætt er að fullyrða að Íslendingar séu siglingaþjóð eins og flugþjóð. 

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 5. febrúar 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 5. febrúar 2015