Bein samskipti milli FME og ytri endurskoðanda hafa verið mjög takmörkuð hingað til.

FME og ytri endurskoðandi

Áslaug Rós Guðmundsdóttir löggiltur endurskoðandi hjá Ernst & Young ehf.

Eftir atburðina á fjármálamörkuðum árið 2008 hafa lög, reglur og staðlar sem snúa að fjármálaheiminum verið í stöðugri skoðun og endurbótum um allan heim og nýir staðlar og reglugerðir hafa verið að líta dagsins ljós. Innihald þeirra litast nokkuð af því efnahagshruni sem átti sér stað árið 2008 og beinist að því að draga lærdóm af því sem hugsanlega hefði mátt betur fara og gera auknar kröfur til eftirlitsaðila. Áritun og vinna endurskoðenda hefur verið til umræðu og því velt upp hvort endurskoðendur hefðu getað séð einhverja þætti fyrir og ennfremur hafa eftirlitsaðilar átt undir högg að sækja og hefur eftirlit og reglur því tengdar aukist nokkuð. Í framhaldi af þessu hafa komið fram nýjar leiðbeiningar og reglu-gerðir sem snúa að endurskoðun, eftirliti og samvinnu á milli ytri endurskoðanda og eftirlitsaðila en nokkuð þykir hafa á það skort að samvinna eftirlitsaðila hafi verið nægjanleg fyrir efnahagshrunið.

Í mars 2014 gaf Baselnefndin um bankaeftirlit (e. Basel Committee on Banking Supervision, BCBS) út nýjar leiðbeiningar um endurskoðun banka. Í þeim leiðbeiningum er fjallað um það hvernig samskipti milli fjármálaeftirlits og ytri endurskoðanda geti aukið bæði gæði og skilvirkni við eftirlit og endurskoðun. Einnig kemur þar fram að slíkt samstarf sé til þess fallið að auka traust og tiltrú á markaðnum og á milli þeirra aðila sem á honum eru.

Á sama ári kom út reglugerð Evrópusambandsins nr. 537/2014 en hún tekur almennt á endurskoðun eininga sem tengjast almannahagsmunum. Þar koma fram svipuð sjónarmið um samskipti eftirlitsstjórn-valda og endurskoðenda lánastofnana og vátrygginga-félaga. Reglugerðin mun taka gildi árið 2016 og vegna EES-samningsins mun hún einnig hafa áhrif hér á landi. Íslensk lög sem snúa að endurskoðun eininga sem tengjast almannahagsmunum eru í skoðun þegar þetta er skrifað og von er á frumvarpi á haust-mánuðum 2016 þar sem reglugerðin verður innleidd. Nú þegar er hópur að störfum sem skipaður er aðilum frá ráðuneytinu auk aðila frá Fjármálaeftirlitinu, Endurskoðendaráði og Félagi löggiltra endurskoðenda og auk innleiðingarinnar á reglugerðinni fer fram heildarendurskoðun á lögum og reglum tengdum endurskoðendum hér á landi.

Í júní 2015 gaf Fjármálaeftirlitið út leiðbeinandi tilmæli nr. 4/2015 um samskipti Fjármálaeftirlitsins og ytri endurskoðenda eftirlitsskyldra aðila sem jafnframt eru einingar tengdar almannahagsmunum. Í tilmælunum koma fram samskiptaviðmið en þeim er ætlað að stuðla að betra eftirliti og auka gæði og skilvirkni endurskoðunar. Samskiptaviðmiðin eru byggð á þeim sjónarmiðum sem koma fram í leiðbeiningum Basel-nefndarinnar um ytri endurskoðun banka, sem einnig liggja til grundvallar tilteknum þáttum reglugerðar Evrópusambandsins nr. 537/2014 um sérstakar kröfur sem gerðar eru til lögbundinnar endurskoðunar eininga sem tengjast almannahagsmunum og verður innleidd hér á landi. Í tilmælum Fjármálaeftirlitsins er í megindráttum fjallað um hvernig samskiptum og upplýsingamiðlun milli Fjármálaeftirlitsins og ytri endurskoðanda skuli háttað fyrir þá aðila sem falla undir tilmælin en Fjármálaeftirlitið mun birta lista yfir þá aðila á heimasíðu sinni.

Samskiptaviðmiðin í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins gera ráð fyrir tveimur fundum á ári milli Fjármálaeftirlitsins og ytri endurskoðanda, annars vegar við undirbúning endurskoðunar og hins vegar fyrir lok endurskoðunar. Fundina skulu að jafnaði sækja fulltrúar Fjármálaeftirlitsins ásamt ytri endurskoðanda og verkefnastjóra hans. Fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og ytri endurskoðandi geta óskað eftir að formaður endurskoðunarnefndar hlutaðeigandi eftirlitsskylds aðila sæki fyrrnefnda fundi varðandi einstök málefni ef þeir telja þörf á því. Formaður endurskoðunarnefndar getur jafnframt óskað eftir að koma á fundina vilji hann koma einhverjum skilaboðum eða upplýsingum á framfæri. Samskiptin eru þannig aðeins milli Fjármálaeftirlitsins og ytri endurskoðandahlutaðeigandi félags nema ef sérstaklega er óskað eftir nærveru formanns endurskoðunarnefndar viðkomandi félags.

Ljóst er að ofangreind samskipti milli Fjármálaeftirlitsins og ytri endurskoðanda munu hafa einhver áhrif á eftirlit og endurskoðun viðkomandi aðila en bein samskipti milli Fjármálaeftirlitsins og ytri endurskoðanda hafa verið mjög takmörkuð hingað til. Tíminn mun svo leiða það í ljós hversu mikil áhrifin verða, hvort gæði í eftirliti og skilvirkni í endurskoðun munu aukast og hvernig traust og tiltrú á markaðnum mun þróast en aukin samvinna þessara aðila verður að teljast skref í rétta átt.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 17. september 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 17. sept. 2015