Undirritaður telur óviðunandi að endurskoðun sé framkvæmd með svo mismunandi hætti.

Góð endurskoðunarvenja

Jóhann Unnsteinsson löggiltur endurskoðandi hjá Ernst & Young

Mikið hefur verið fjallað um endurskoðun lítilla fyrirtækja á síðastliðnum árum. Mörgum hagsmuna-aðilum þykir kostnaður við endurskoðun þeirra vera of íþyngjandi. Þetta er sérstaklega viðeigandi hér á landi þar sem mikill meirihluti fyrirtækja eru lítil fyrirtæki. Ekki hvílir endurskoðunarskylda á minnstu fyrirtækjum hér á landi. Þrátt fyrir það teljast flest þeirra fyrirtækja sem eru endurskoðunarskyld lítil í þessu samhengi. Sitt sýnist hverjum um það hvar stærðarmörkin eiga að liggja, en það er mikilvægt að huga að því reglulega hvort ástæða sé til að breyta þeim.

Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) er aðili að alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC). Með aðildinni eru félagsmenn í FLE skuldbundnir til að endurskoða í samræmi við alþjóðlega endur-skoðunarstaðla (ISAs) útgefna af IFAC. FLE hefur unnið ötullega að því að aðstoða félagsmenn við að tileinka sér ISA-staðlana. Það hafa hins vegar verið skiptar skoðanir á meðal endurskoðenda hvort þeir séu heppilegt tæki til að endurskoða litlar einingar. Sömuleiðis er óvissa uppi um það hvort ISA-staðlarnir hafi verið lögleiddir með fullnægjandi hætti. Það breytir ekki því að endurskoðendur hér á landi eru skuldbundnir til að fara eftir stöðlum sem gefnir eru út af IFAC vegna félagsaðildar að FLE. Ég tel að almennt séu endurskoðendur sammála um mikilvægi þess að endurskoðun sé framkvæmd með samræmdum hætti. Ekki sé heppilegt fyrir atvinnulífið að góð endurskoðunarvenja sé mismunandi eftir því hver endurskoðandinn er. Það er skoðun IFAC að það sé í þágu almannahagsmuna að notendur reikningsskila geti treyst því að endurskoðun eininga, hvort sem þær eru stórar eða litlar, einfaldar eða flóknar, sé framkvæmd með samræmdum hætti. Einnig heldur IFAC því fram að staðlar hafi verið hannaðir þannig að þeir henti fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum. Það eru ekki allir sammála þessari fullyrðingu IFAC. Um of sé treyst á tékklista við endurskoðunina á kostnað faglegs mats reyndra endurskoðenda.

Markmiðið með endurskoðun er að láta í ljós álit á því hvort reikningsskilin gefi glögga mynd af afkomu og efnahag viðkomandi einingar. Í því sambandi þurfa endurskoðendur að framkvæma áhættumat og velja endurskoðunaraðferðir í samræmi við það mat. Sömuleiðis þurfa endurskoðendur að meta hvort reikningsskilaaðferðir og matsaðferðir stjórnenda við gerð ársreikninga séu viðeigandi, sem og mat á framsetningu ársreikningsins í heild. Í þessu felst að ekki nægir að endurskoðendur útfylli tékklista án faglegs mats. Hvort sem endurskoðendur nota ISA-staðlana við vinnu sína eða aðrar aðferðir er faglegt mat mikilvægur liður í því að komast að niðurstöðu um það hvort reikningsskil gefi glögga mynd af afkomu og efnahag.

Norræna endurskoðunarsambandið (NRF) setti á laggirnar vinnuhóp í ársbyrjun 2014 með það að markmiði að semja norrænan endurskoðunarstaðal fyrir litlar einingar. Jón Rafn Ragnarsson endurskoðandi er fulltrúi FLE í þeirri vinnu. Samkvæmt kynningu Jóns Rafns á ráðstefnu endurskoðenda í apríl sl. verður staðallinn birtur fljótlega. Það verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst og hvort þessi vinna verður til þess að sætta ólík sjónarmið endurskoðenda um aðferðir við endurskoðun lítilla fyrirtækja. Mikilvægt er að vinnan hefur verið unnin í samráði við IFAC og alþjóðlega staðlaráðið (IAASB). Undirritaður fékk tækifæri á framangreindri ráðstefnu til að spyrja prófessor Arnold Schilder, forseta IAASB, um álit hans á þeirri vinnu sem fram hefur farið innan NRF. Ekki var annað að heyra en hann væri jákvæður gagnvart vinnu starfshópsins, en hann telur mikilvægt að staðallinn byggist á ISA stöðlunum. Líklegt er að niðurstaðan verði eins konar úrdráttur úr ISA-stöðlunum sem geti hjálpað endurskoðendum að meta mikilvægi einstakra endurskoðunaraðgerða og þannig sparað kostnað við endurskoðunina án þess að það komi niður á gæðum vinnunnar.

Endurskoðendur innan stærri endurskoðendafyrirtækja hafa í mörg ár endurskoðað í samræmi við ISA staðlana og líta þannig á að staðlarnir séu góð endurskoðunarvenja. Ýmsir aðrir endurskoðendur halda því fram að góð endurskoðunarvenja séu þær aðferðir sem þeir hafi notað frá því áður en ISA-staðlarnir voru teknir upp hér á landi. Mikill munur er á þessum aðferðum við endurskoðun. Undirritaður telur óviðunandi að endurskoðun sé framkvæmd með svo mismunandi hætti. Það er mikið hagsmunamál fyrir endurskoðendur og notendur reikningsskila að almenn sátt verði um framangreindan staðal frá NRF og að hann verði í framhaldinu innleiddur hér á landi.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 7. maí 2015 bls. 12.

 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 7. maí 2015