Af 32 ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), þá er Ísland í 31. sæti yfir fjölda tvísköttunar-samninga við önnur ríki.

Ísland rekur lestina í fjölda tvísköttunarsamninga

Símon Þór Jónsson skattasérfræðingur og meðeigandi hjá Deloitte

Af 32 ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), þá er Ísland í 31. sæti yfir fjölda tvísköttunarsamninga við önnur ríki. Aðeins Liechtenstein er með færri samninga, en Liechtenstein fór ekki að leita eftir að gera tvísköttunarsamninga við önnur ríki fyrr en árið 2009. Það er því varla hægt að segja annað en að Ísland reki lestina að þessu leyti. Sjá meðfylgjandi töflu yfir fjölda gildandi tvísköttunar-samninga í EES ríkjunum 32.

Hvað er tvísköttunarsamningur? Almennt leggja ríki skatta á aðila út frá tveimur forsendum. Annars vegar vegna uppruna teknanna, þ.e. ríkið þar sem tekjurnar eru upprunnar leggur á þær skatt. Hins vegar vegna heimilisfesti móttakanda teknanna, þ.e. ríkið þar sem móttakandinn á heimili leggur á þær skatt. Án tvísköttunarsamnings, leiðir framangreint til þess að tekjur, sem maður heimilisfastur í ríki 1 aflar í ríki 2, verða skattskyldar í báðum ríkjum. Tvísköttunarsamningur leysir úr slíkri tvískatt-lagningu. Samið er um að tekjurnar skattleggist aðeins einu sinni, en ekki tvisvar. 

Fjöldi tvísköttunarsamninga skiptir máli í samkeppni ríkja um fjárfestingar og fyrirtæki. Fjöldi tvísköttunarsamninga skiptir máli þegar fyrirtæki ákveða í hvaða lögsögum þau staðsetja höfuðstöðvar, eignarhaldsfélög eða starfsemi. Fáir tvísköttunarsamningar Íslands samanborið við fjölda samninga annarra ríkja draga því óumdeilanlega úr samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum ríkjum um fjárfestingar og fyrirtæki.

Ísland er því miður ekki í góðri stöðu að þessu leyti samanborið við önnur EES-ríki, sbr. fyrrgreinda töflu. Ísland hefur t.d. aldrei haft gildan tvísköttunarsamning við tvö Evrópusambandsríki, Austurríki og Búlgaríu. Þá hefur Ísland aldrei haft samninga við sex ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Ástralíu, Ísrael, Japan, Nýja-Sjáland, Síle og Tyrkland.

Ef litið er til þeirra 30 ríkja sem voru með mestu verga landsframleiðslu 2013 þá er Ísland ekki með tvísköttunarsamninga við meirihluta ríkjanna eða sextán þeirra, sbr. eftirfarandi upptalningu (númer er staða viðkomandi lands á landsframleiðslulistanum): Japan (4), Brasilía (7), Indónesía (9), Saudi-Arabía 14), Tyrkland (17), Íran (18), Ástralía (19), Nígería (20), Taívan (21), Taíland (22), Argentína (23), Egyptaland (24), Pakistan (26), Malasía (28), Suður-Afríka (29) og Filippseyjar (30).

Það er umhugsunarefni af hverju staðan er með þessum hætti. Nú eru önnur EES-ríki með fáa íbúa eins og Ísland, eins og t.d. Lúxemborg (um 520.000 íbúar) og Malta (um 450.000 íbúar) en samt með áberandi fleiri gilda tvísköttunarsamninga, 67 (Lúxemborg) og 68 (Malta) á móti 40 samningum Íslands. Þessi ríki eru því með 68-70% fleiri samninga en Ísland. Þá má nefna að ríki eins og Lettland (rúmar 2 milljónir íbúa) hóf ekki að gera tvísköttunar-samninga fyrr en á árinu 1992, en er þrátt fyrir það komið með 43% fleiri samninga en Ísland, eða 57 á móti 40 samningum Íslands. Þá eru mörg önnur smáríki innan EES sem urðu ekki sjálfstæð fyrr en á tíunda áratug 20. aldar en eru þrátt fyrir það með umtalsvert fleiri gildandi samninga en Ísland.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 23. apríl 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 23. apríl 2015