Til staðar eru sérstakir alþjóðlegir staðlar sem snúa að öðrum störfum endurskoðenda en að beinni endurskoðun ársreikninga. Algengustu áritanir sem endurskoðendur nota vegna annarrar vinnu en endurskoðunar eru könnunaráritun og áritun á óendurskoðuð reikningsskil.

Könnunaráritun og önnur staðfestingarvinna

Sigurður B. Arnþórsson, framkvæmdastjóri Félags löggiltra endurskoðenda

Til staðar eru sérstakir alþjóðlegir staðlar sem snúa að öðrum störfum endurskoðenda en að beinni endurskoðun ársreikninga. Algengustu áritanir sem endurskoðendur nota vegna annarrar vinnu en endurskoðunar eru könnunaráritun og áritun á óendurskoðuð reikningsskil.

Markmið könnunar á árshlutareikningi eða ársreikningi er að gera endurskoðandanum kleift að álykta, byggt á aðgerðum sem ekki eru jafn ítarlegar og við endurskoðun, hvort nokkuð hafi komið fram sem bendi til annars en að reikningsskilin gefi glögga mynd í samræmi við reikningsskilarammann. Tveir alþjóðlegir staðlar eru til staðar sem fjalla um kannanir á ársreikningum eða árshlutareikningum, ISRE 2400 og ISRE 2410. Þegar um er að ræða samandregna ársreikninga eða árshlutareikninga er ekki minnst á glögga mynd heldur er einungis ályktað með sama hætti hvort nokkuð hafi komið fram sem bendi til annars en að reikningsskil séu í samræmi við reikningsskilarammann. Markmiðið með könnunaráritun er því að gefa út „neikvæða staðfestingu“ á reikningsskilin, ólíkt endurskoðun þar sem veitt er „jákvæð staðfesting“.

Í áritun skal koma fram tilvísun í þau reikningsskil sem verið er að árita, yfirlýsing um ábyrgð stjórnenda á reikningsskilunum og ábyrgð þess sem gefur út áritunina. Í árituninni þarf að vera málsgrein um umfang könnunarinnar þar sem vísað er til þeirra staðla um könnun reikningsskila sem við eiga, að hún feli einkum í sér fyrirspurnir og greiningar og feli því ekki í sér jafn víðtækar aðgerðir og við endurskoðun. Jafnframt þarf að vera yfirlýsing um að ekki hafi verið framkvæmd endurskoðun og því sé ekki látið í ljós álit á ársreikningnum eða árshlutareikningnum. Ef könnunin leiðir í ljós að reikningsskilin gefi ekki glögga mynd af rekstri og efnahag skal endurskoðandinn geta þess í áritun sinni. Sama á við ef veruleg takmörkun hefur verið á umfangi könnunarinnar.

Markmiðið með aðstoð við gerð ársreiknings er að endurskoðandi noti faglega þekkingu sína á gerð reikningsskila til að safna saman, flokka og setja fram fjárhagslegar upplýsingar. Markmiðið með aðstoðinni er því ekki að afla upplýsinga og gagna til stuðnings áliti á framsetningu reikningsskilanna. Endurskoðandi sem veitir slíka aðstoð skal samt sem áður árita ársreikninginn.

Í áritun skal koma fram yfirlýsing um að vinnan hafi verið framkvæmd í samræmi við staðal ISRS 4410 sem fjallar um aðstoð við gerð ársreiknings, tilvísun í þau reikningsskil sem verið er að árita og tilvísun í að þau séu byggð á fjárhagsupplýsingum frá stjórnendum. Jafnframt skal koma fram yfirlýsing um ábyrgð stjórnenda á reikningsskilunum og einnig yfirlýsing um að hvorki endurskoðun né könnun hafi verið gerð og því sé ekki látið í ljós álit á reikningsskilunum. Ef endurskoðandinn verður var við veruleg frávik frá reikningsskilareglum skal setja ábendingu um það í áritun. Ef endurskoðandinn er ekki óháður skal koma fram yfirlýsing um það í árituninni.

Í áritun endurskoðenda kemur fram álit á ársreikningnum, en auk þess koma endurskoðendur ábendingum og athugasemdum á framfæri við stjórn eða stjórnendur ýmist í endurskoðunarskýrslu eða með öðrum hætti. Mikilvægum atriðum ber að miðla skriflega til stjórnar eða stjórnenda.

Ábendingar og athugasemdir sem endurskoðendur koma á framfæri við stjórnendur geta t.d. verið:

  • ábendingar um verulega veikleika í innra eftirliti félagsins,
  • athugasemdir við reikningsskilaaðferðir, reikningshaldslegt mat og skýringar,
  • ábendingar um veruleg vandamál sem upp komu við endurskoðun og
  • ábendingar um mikilvæg atriði sem upp komu við endurskoðun.

Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu félagsins www.fle.is.

Nálgast greinina í Mbl. hér 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 16. feb. 2017