Um allnokkurt skeið hafa fjárfestar víða um heim farið fram á að áritun endurskoðenda gefi þeim meiri upplýsingar en einfalda niðurstöðu um hvort ársreikningurinn standist kröfur reikningsskilareglna eða ekki. Þeir hafa kallað eftir vitneskju um hvað endurskoðandinn telur mikilvægustu atriðin við endurskoðunina og hvernig hann nálgast þau í sinni vinnu.

Nýjar áritanir endurskoðenda

loksins þess virði að lesa
Margret G. Flóvenz, löggiltur endurskoðandi og hluthafi í KPMG

Um allnokkurt skeið hafa fjárfestar víða um heim farið fram á að áritun endurskoðenda gefi þeim meiri upplýsingar en einfalda niðurstöðu um hvort ársreikningurinn standist kröfur reikningsskilareglna eða ekki. Þeir hafa kallað eftir vitneskju um hvað endurskoðandinn telur mikilvægustu atriðin við endurskoðunina og hvernig hann nálgast þau í sinni vinnu.

Það er ljóst að við endurskoðun safnast mikið af upplýsingum og að endurskoðendur búa yfir þekkingu og innsæi sem geta komið fjárfestum og öðrum notendum ársreikninga að gagni. Með nýjum reglum um áritanir endurskoðenda höfum við endurskoðendur nú tækifæri til að deila vitneskju okkar og þekkingu með notendunum.

Alþjóðlega endurskoðunarnefndin hefur gefið út nýja staðla um áritanir sem fela í sér mikilvægar breytingar á upplýsingagjöf frá endurskoðendum til notenda reikningsskila. Staðlarnir taka gildi frá og með endurskoðun ársreikninga 2016. Að auki hefur Evrópusambandið sett reglur um upplýsingar í áritunum endurskoðenda, sem að sumu leyti eru þær sömu og staðlarnir gera ráð fyrir, en að sumu leyti ítarlegri. Þær reglur hafa ekki verið innleiddar á Íslandi en vænta má að það verði gert áður en langt um líður.

Stærsta breytingin á áritunum endurskoðenda er tilkoma svokallaðra lykilþátta í endurskoðun sem endurskoðendum ber nú að greina frá í áritun sinn á ársreikninga skráðra félaga. Lykilþættir eru þau viðfangsefni við endurskoðunina sem kölluðu á mesta athygli endurskoðandans, voru flókin, vörðuðu háar fjárhæðir eða voru háð óvissu á einhvern hátt. Lykilþættir eru þó ekki öll þessi viðfangsefni í hverri endurskoðun heldur þarf endurskoðandinn að skilgreina þau almikilvægustu og greina frá þeim. Í árituninni þarf að koma fram hverjir þessir lykilþættir eru, hvers vegna þeir eru skilgreindir sem slíkir og hvernig endurskoðandinn nálgaðist þá í vinnu sinni.

Skilgreining á lykilþáttum getur verið veruleg áskorun fyrir endurskoðandann og viðbúið að það taki einhvern tíma að þróast hvernig endurskoðendur nálgast þá og setja þá fram. Endurskoðendum ber nú þegar að veita stjórnum eða endurskoðunarnefndum ýmsar upplýsingar um endurskoðunina svo sem um ágalla í innra eftirliti og önnur mikilvæg mál sem fram koma við endurskoðunarvinnuna. Úr þessum atriðum eru lykilþættirnir valdir.

Þessi nýja nálgun í áritunum kallar á aukin samskipti endurskoðenda og endurskoðunarnefnda þar sem það er mikilvægt að áritunin sé rædd við endurskoðunarnefnd með góðum fyrirvara. Mögulega þarf að auka við eða bæta skýringar með ársreikningi til að koma í veg fyrir að í áritunum komi fram ítarlegri upplýsingar um tiltekna liði en í ársreikningnum sjálfum. Tímanleg og opin samskipti endurskoðunarnefndar og endurskoðanda um efni áritunarinnar eru því afar mikilvæg.

Bretar og Hollendingar hafa tekið forskot á sæluna og þegar innleitt svipaða staðla í sitt regluverk. Þær reglur eru umfangsmeiri en nýju staðlarnir en þó má mæla með því að stjórnendur og endurskoðunarnefndarfólk skoði áritanir á stór bresk fyrirtæki svo sem Rolls-Royce Holdings plc.

Sem fyrr segir er markmiðið með umfjöllun um lykilþætti í áritun endurskoðenda að auka gagnsæi og gefa notendum ársreikninga innsýn í þá umræðu sem fram fer við endurskoðunarnefndir um hættu á skekkju í reikningsskilunum og endurskoðunarvinnuna vegna þeirrar hættu. Endurskoðunarvinnan sjálf breytist ekkert aðeins skýrslugjöf endurskoðandans. Umfjöllun um lykilþætti þarf að vera sérsniðin að hverju fyrirtæki og hverjum ársreikningi. Endurskoðandinn þarf, vegna hvers lykilþáttar, að skýra af hverju þetta er lykilþáttur, hvernig brugðist var við í endurskoðuninni og vísa í viðeigandi upplýsingar í ársreikningnum. Mikilvægt er að byggt sé á staðreyndum og að upplýsingar séu nægilega ítarlegar til að lesandi ársreiknings átti sig á því hvernig endurskoðandinn brást við en jafnframt að forðast of tæknilegt orðalag. Í ársreikningum íslenskra félaga, sem fæst eru mjög stór eða flókin, má vænta þessa að fjallað verði um einn til þrjá lykilþætti þó svo á því geti orðið undantekningar.

Endurskoðendur binda miklar vonir við að þessi nýja nálgun auki virði endurskoðunarvinnunnar fyrir notendur ársreikninga en ljóst er að um mikla áskorun er að ræða við að gera umfjöllun um lykilþætti endurskoðunarinnar sem best úr garði. Nýjar áritanir endurskoðenda hafa fengið góðar viðtökur þar sem þær hafa verið innleiddar og svo vitnað sé í erlendan fjárfesti „áritanir endurskoðenda eru nú loks þess virði að lesa þær“.

Sjá greinina í Mbl. hér.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 10. janúar 2017
10.01.2017