Þrátt fyrir hvatningu í IAS 7 um að setja fram rekstrarhreyfingar með beinum hætti hefur það ekki fengið hljómgrunn hjá semjendum reikningsskila á Íslandi.

Sjóðstreymi

Að lesa línurnar en ekki á milli línanna
Jón Rafn Ragnarsson löggiltur endurskoðandi og meðeigandi hjá Deloitte

Ársreikningum fyrirtækja er ætlað að segja sögu og veita gagnlegar upplýsingar. Sagan er sögð í nokkrum köflum eða yfirlitum. Fyrst gegnum rekstrarreikning eða yfirlit um heildarafkomu, sem er saga þess sem gerðist á árinu. Þá efnahagsreikning, sem er staðan í lok árs, og síðan sjóðstreymisyfirlit, sem eru hreyfingar á handbæru fé, þ.e. peningalegar hreyfingar á árinu. Þessu fylgja síðan skýringaryfirlit öðrum yfirlitum til stuðnings.

Best er að eiga samskipti með beinum hætti, þó að það gerist víða að send eru óbein skilaboð. Sögu er best að segja með beinum hætti þannig að ekki þurfi að lesa milli línanna. Þannig er því þó ekki farið með meirihluta þeirra sjóðstreymisyfirlita sem birtast opinberlega í ársreikningum á Íslandi, þar sem saga þeirra er oft sögð með óbeinum hætti.

Sjóðstreymisyfirlitið hefur að geyma mikilvægar upplýsingar fyrir lesendur ársreikninga og nauðsynlegt er að lesa rekstrarreikning með hliðsjón af sjóðstreymisyfirlitinu til að átta sig á heildarmyndinni. Fyrirtækin sem birta uppgjör sín í Kauphöll og gera reikningsskil samkvæmt alþjóðlegum reikningsskila-stöðlum fara eftir sérstökum staðli, IAS 7 um gerð sjóðstreymisyfirlits. Hann var fyrst gefinn út árið 1977, var breytt árið 1992 og svo aftur 2003 en hefur lítið breyst frá þeim tíma. Önnur fyrirtæki styðjast við reglur reikningsskilaráðs nr. 3 um sjóðstreymi, en þær reglur byggja í meginatriðum á IAS 7 eins og staðallinn var þegar reglurnar voru lagðar fram árið 1998. Sjóðstreymisyfirlitum er skipt í þrjá flokka; rekstrar-hreyfingar, fjárfestingarhreyfingar og fjármögnunar-hreyfingar.

Fjárfestingarhreyfingar stafa af kaupum og sölum á langtímaeignum og öðrum fjárfestingum. Þar eru útborganir og innborganir sem fyrst og fremst varða eignahlið efnahagsreiknings. Fjárfestingarhreyfingar greina alla jafna með beinum hætti frá því fjármagni sem var notað í fjárfestingar eða fékkst greitt til baka vegna sölu fjárfestinga.

Fjármögnunarhreyfingar eru vegna þeirra breytinga á handbæru fé sem stafa af samsetningu eigin fjár og lántöku. Fjármögnunarhreyfingar greina jafnframt með beinum hætti frá því fjármagni sem var fengið með fjármögnun lánveitenda og/eða hluthafa eða greitt var til baka af lánum eða arði.

Rekstrarhreyfingar eru þær hreyfingar sem stafa af aðaltekjuöflunarstarfsemi fyrirtækisins og öðrum rekstri sem ekki flokkast sem fjárfestingar- og/eða fjármögnunarhreyfingar. Við framsetningu rekstrarhreyfinga er heimilt að styðjast við tvær aðferðir samkvæmt IAS 7. Annars vegar beinu aðferðina og hins vegar óbeinu aðferðina. Samkvæmt ISA 7.19 eru fyrirtæki hvött til þess að nota beinu aðferðina, þar sem hún veitir upplýsingar sem nýtast við mat á framtíðar-sjóðstreymi, sem er ekki hægt samkvæmt óbeinu aðferðinni. Beina aðferðin segir því sögu rekstrarreiknings á greiðslugrunni þannig að hægt er að bera saman sjóðstreymi og rekstrarreikning með beinum hætti. Óbeina aðferðin tilgreinir hins vegar hagnað eða rekstrarhagnað og dregur síðan frá reiknaðar stærðir, breytingar á rekstrartengdum eignum og rekstrartengdum skuldum og dregur þannig fram samtals rekstrarhreyfingar. Samkvæmt IAS 7 er öllum fyrirtækjum skylt að tilgreina innborgaða vexti, greidda vexti og greiddan tekjuskatt þannig að tryggt sé að a.m.k. sá hluti sé tilgreindur með beinni aðferð.

Þrátt fyrir hvatningu í IAS 7 um að setja fram rekstrar-hreyfingar með beinum hætti hefur það ekki fengið hljómgrunn hjá semjendum reikningsskila á Íslandi. Ástæðurnar hafa ekki verið rannsakaðar svo ég viti en mín tilfinning er sú að þetta liggi í ákveðinni íhaldssemi, þ.e. að svona hafi þetta alltaf verið. Það hefur líka verið vinsælla að styðjast við óbeina aðferð í kennslu háskólanna. Vinnublöð sem þar eru notuð byggja yfirleitt á óbeinu aðferðinni og þykja þægilegri í notkun. Til staðar eru hins vegar prýðileg vinnublöð til að útbúa sjóðstreymisyfirlit með beinni aðferð og mega áhugasamir hafa samband við undirritaðan ef þeir vilja komast yfir slík eintök.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 27. ágúst 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 27. ágúst 2015