Hjónum sem búa og starfa sitt í hvoru landinu hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Fróðlegt er því að skoða lagaumhverfið í þessu samhengi varðandi skattskil og önnur réttindi /skyldur hjóna í þessari stöðu.

Skattskil hjóna með lögheimili sitt í hvoru landinu

Unnur Bachmann lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði PwC

Hjónum sem búa og starfa sitt í hvoru landinu hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Samkvæmt lögheimilislögum skulu hjón eiga sama lögheimili. Í framkvæmd er þó að myndast hefð fyrir því að vikið sé frá þeirri kröfu þegar annað hjóna starfar erlendis. Fróðlegt er því að skoða lagaumhverfið í þessu samhengi varðandi skattskil og önnur réttindi /skyldur hjóna í þessari stöðu. Máli skiptir hvort Ísland er með tvísköttunarsamning við viðkomandi ríki eða ekki, hvort hjóna er skráð fyrir eignum, hvaðan tekjur eru upprunnar og hvar fjármunir og fasteignir eru staðsettar.

Með dæmi verður hér að neðan reynt að gera skil á því helsta sem kemur til skoðunar. Hjónin X og Y hafa búið í landi A um árabil ásamt barni sínu og eiga þar fasteign. Nú hyggst Y flytja til Íslands ásamt barninu en X mun búa og starfa áfram í landi A. Hjón eru sjálfstæðir skattaðilar og skal þeim hvoru um sig ákveðinn tekjuskattur. X myndi teljast hafa heimilisfesti í landi A og Y á Íslandi. Þau greiða skatt af þeim tekjum sem hvort þeirra hefur í því landi sem þau hafa heimilisfesti í og starfa. Aðalálitaefnið snýr að tekjum sem þau kunna að hafa í hinu landinu.

Þeir sem bera fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi ber að gera grein fyrir öllum tekjum sínum og eignum sínum óháð því hvar þær eru eða hvaðan þær eru upprunnar, sbr. 1. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003. Y gerir því grein fyrir öllum tekjum og eignum sínum á framtali hér á landi. Skv. 63. gr. tekjuskattslaga skal skattleggja Y sem einstakling þar sem X ber ekki ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Þau geta því ekki samnýtt persónuafslátt sinn en þau bera áfram sameiginlega ábyrgð á sköttum hvort annars og ber skylda til að skila sameiginlegu skattframtali.

Ef X er skráður eigandi fasteignarinnar erlendis og eignin er ekki séreign X heldur hjúskapareign þá mun Y þurfa að gera grein fyrir eigninni á framtali í reit 4.2. Ekki þarf að telja erlendu fasteignina fram hér ef hún er séreign X.

Vegna barna- og vaxtabóta þarf að upplýsa um tekjur X á forsíðu skattframtals í reit 1.4 þó svo að X sé ekki með heimilisfesti hér á landi, því tekjur X skipta máli varðandi þessar greiðslur. Það fer þó eftir aðstæðum hverju sinni hvort þessar bætur fáist greiddar, m.a. skuldastöðu og tekjum.

Ef tvísköttunarsamningur er fyrir hendi við ríkið þar sem X er með heimilisfesti greiðir X skatt af launum sínum þar og af fasteigninni sem er skráð á X. Ísland á skattlagningarréttinn af leigutekjum af fasteign þeirra hér á landi. Hvað varðar vaxtatekjur af fjármunum þeirra erlendis yrði að skera úr um hver væri raunverulegur eigandi vaxtanna, en vexti sem myndast erlendis og greiddir yrðu Y (á Íslandi) skal einungis skattleggja í síðarnefnda ríkinu ef viðkomandi aðili er raunverulegur eigandi vaxtanna.

Ef tvísköttunarsamningur er ekki fyrir hendi er ríkisskattstjóra heimilt, skv. umsókn skattaðila, að lækka tekjuskatt hans hér á landi með hliðsjón af skatt- greiðslum hans í hinu ríkinu, sbr. 5. mgr. 119. gr. tekjuskattslaga. Hægt er að óska eftir þessu með
athugasemd í reit 1.4 á forsíðu framtals. Með framtali þarf að senda staðfestingu á greiddum skatti erlendis. Ef ekki er óskað eftir því að tekið verði tillit til greiddra skatta erlendis er hætta á tvísköttun.

Hjón bera framfærsluskyldu gagnvart hvort öðru skv. hjúskaparlögum og foreldrar bera einnig framfærslu-skyldu gagnvart barni sínu. Því er eðlilegt að annað hjóna aðstoði hitt. X ber ekki ótakmarkaða skatt-skyldu hér álandi og því er framfærsluféð skatt-skyldar tekjur hjá Y sem Y ber að telja fram. Rétt er þó að taka fram að skattyfirvöld hafa ekki skattlagt framfærslueyri sem er innan eðlilegra marka og ekki eru dæmi um að skattyfirvöld hafi grennslast fyrir um framfærslueyri milli hjóna eða gengið eftir því að gerð sé grein fyrir honum á skattframtali.

Vegna gjaldeyrishafta flækist málið ef dæminu er snúið við, þ.e. ef X fengi framfærslufé frá Y. Y er flokkaður sem innlendur aðili á meðan X er erlendur aðili, sbr. skilgreiningu laga um gjaldeyrismál. Seðlabanka Íslands er heimilt að veita undanþágu frá banni á fjármagnshreyfingum samkvæmt umsókn þar að lútandi. Y þyrfti því að sækja um undanþágu til að flytja fjármuni frá Íslandi. Innlendum aðilum er heimilt að styrkja erlenda aðila um erlendan gjaldeyri fyrir allt að jafnvirði kr. 3.000.000 á almanaksári.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 14. maí 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 14. maí 2015