Standist þessi túlkun gætu fjölmörg þrotabú staðið frammi fyrir gríðarlegri skattlagningu og þar með upptöku allra eigna sinna á kostnað annarra kröfuhafa.

Skatturinn getur tæmt þrotabúin

Guðbjörg Þorsteinsdóttir lögfræðingur og verkefnastjóri á skatta- og lögfræðisviði Deloitte

Við fyrstu sýn mætti ætla að ekki væri mikið um flókin álitaefni tengd skattlagningu þrotabúa því um er að ræða ógjaldfæra aðila sem alla jafna hafa ekki miklar skattskyldar tekjur. Þrátt fyrir þetta hafa komið fram ýmis álitaefni varðandi skattskyldu þrotabúa sem ekki er tekið sérstaklega á í skattalögum. Eitt af þessum álitaefnum snýr að athyglisverðu áliti ríkisskattstjóra en miðað við þá túlkun gæti verið um að ræða nýja tekjuöflunarmöguleika fyrir ríkissjóð.

Þannig er mál með vexti að fyrr á þessu ári barst skatta- og lögfræðisviði Deloitte ehf. svar frá ríkisskattstjóra við fyrirspurn um hvernig fara skyldi skattalega með skuldir umfram eignir sem ekki fengjust greiddar við uppgjör þrotabúa, t.d. ef einungis væru til eignir fyrir 40% krafna á hendur viðkomandi búi. Ríkisskattstjóri vísaði til þeirrar meginreglu að skuldir sem ekki fást greiddar teljast til skattskyldrar eftirgjafar hjá skuldara. Það væri álit embættisins að engar sérreglur giltu um eftirgjöf skulda hjá þrotabúum og því myndi mismunurinn teljast skattskyld eftirgjöf. Ef hins vegar væri um gjaldþrota einstakling að ræða sem fær eftirgefnar skuldir utan atvinnurekstrar þá myndi slík eftirgjöf ekki teljast til tekna hjá viðkomandi á grundvelli undantekningarreglu í tekjuskattslögum. Samskonar undantekningarreglu er ekki að finna hvað varðar skuldir lögaðila sem hafa myndast í atvinnurekstri.

Ríkisskattstjóri tók fram í svari sínu að „eðli máls samkvæmt“ myndi líklega ekki koma til neinnar skattlagninga hjá þrotabúum þar sem í flestum tilvikum væri til staðar yfirfæranlegt tap til að mæta tekjufærslunni. Þá væri þrotabúum einnig heimilt að nýta sér lækkun á tekjufærslunni í samræmi við sérstök bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga. Raunin er þó oft sú að þrotabú hafa ekki til staðar nægjanlegt yfirfæranlegt rekstrartap til að mæta mögulegri tekjufærslu og þá skattlagningu vegna eftirgjafar á skuldum þess.

Þá kemur að því álitaefni hver rétthæð þessarar skattkröfu er í þrotabúi samkvæmt ákvæðum gjald-þrotaskiptalaga. Reglan er sú að skattkröfur sem falla til fyrir úrskurðardag teljast til almennra krafna, en skattkröfur sem falla til meðan á gjaldþrotaskiptum stendur teljast svokallaðar búskröfur sem ganga framar forgangskröfum. Þetta var meðal annars staðfest í dómi Hæstaréttar í máli nr. 62/2014 (Fjármálaeftirlitið gegn EA fjárfestingarfélagi ehf.) en þar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að eftirlitsgjald Fjármálaeftirlitsins sem féll á fjár- málafyrirtæki í slitameðferð, auk dráttarvaxta, teldist til búskrafna á þeim grundvelli að opinber gjöld, sem lögð væru á þrotabú vegna starfsemi þess eftir upphaf gjaldþrotaskipta, teldust til skiptakostnaðar.

Samkvæmt þessu verður ekki annað séð en að umræddar skattkröfur vegna skulda þrotabúa umfram eignir teldust einnig njóta stöðu sem búskröfur, en fyrir utan forgang slíkra krafna þá er hægt að fylgja þeim fram gagnvart þrotabúi eftir að kröfulýsingafrestur er liðinn sem almennt væri ekki hægt með annars konar kröfur. Sem dæmi má nefna að ef þrotabú á eignir samtals að verðmæti 10 m.kr. en skuldir búsins næmu samtals 45 m.kr., þá myndi leggjast 36% tekjuskattur á 35 m.kr., eða 12,6 m.kr. í tekjuskatt. Þar með myndi álagður tekjuskattur vegna eftirgjafarinnar vera hærri en sem næmi eignum búsins og allar eignir þrotabúsins, að frátöldum öðrum skiptakostnaði, rynnu í ríkissjóð.

Enn hefur ekki reynt á þetta álit ríkisskattstjóra en standist þessi túlkun gætu fjölmörg þrotabú staðið frammi fyrir gríðarlegri skattlagningu og þar með upptöku allra eigna sinna á kostnað annarra kröfuhafa.  Með vísan til þessa virðist ríkissjóður hafa fundið aðferð til að tæma þrotabú. Þannig gæti hann herjað á eignamikil þrotabú, t.d. hinna föllnu viðskiptabanka og tæmt þau þannig að aðrir kröfuhafar sætu eftir með sárt ennið. Kannski þarf því ekki að leggja á sérstakan útgönguskatt eins og rætt hefur verið um, en það er svo sem efni í sérstaka grein.

 

Mbl.is - Viðskiptamogginn 20. nóv. 2014 bls. 12.
20.11.2014