ESRS setur ekki fram ákveðið ferli sem skal fylgja við gerð mikilvægismats né setur viðmið um hvenær málefni telst mikilvægt. Það er því lagt í hendur hvers félags að framkvæma matið í samræmi við kröfur staðalsins og setja viðmið fyrir hvenær málefni telst mikilvægt.

Tvíþætt mikilvægismat - Hvað er það?

Svanhildur Skúladóttir, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG og Hildur T. Flóvenz, sérfræðingur hjá KPMG

Mikilvægi og mat á því er eitthvað sem er endurskoðendum að góðu kunnugt og eitt af því fyrsta sem er framkvæmt við endurskoðun. Það er reiknuð stærð út frá fjárhæðum í rekstri eða efnahag félags, allt eftir því um hvers konar félag er að ræða.

Evrópusambandið hefur samþykkt nýja staðla (European Sustainability Reporting Standards - ESRS) um birtingu sjálfbærniupplýsinga. Í stöðlunum eru kynnt fjöldamörg ný hugtök og meðal annars er sett fram krafa um mat á mikilvægi (e. materiality) sjálfbærnimála. Nánar má lesa um ESRS staðlana í grein Árna Claessen frá því í janúar en umfjöllun um mikilvægi er að finna í grunnstöðlunum ESRS 1 og ESRS 2.

Upphafspunktur innleiðingar ESRS og birtingar sjálfbærniupplýsinga í samræmi við staðlana er að framkvæma mat á mikilvægi. Þannig er greint hvar mikilvæg/veruleg áhrif, áhættur og tækifæri í starfsemi félags liggja. Mat á mikilvægi samkvæmt ESRS er tvíþætt og skiptist í mat á mikilvægum áhrifum (e. impact materiality) og fjárhagslegt mikilvægi (e. financial materiality). Í raun er um að ræða tvær víddir á mikilvægismatinu sem eru nátengdar og er nauðsynlegt að hafa tengsl þeirra í huga. Mikilvægismatið hefst á mati á mikilvægum áhrifum en áhrif falla þar undir, óháð því hvort þau eru fjárhagslega mikilvæg eða ekki.

Áhrif sjálfbærnimála eru mikilvæg ef þau tengjast mikilvægum raunverulegum eða mögulegum, neikvæðum eða jákvæðum áhrifum félags á samfélag eða umhverfi til lengri eða skemmri tíma. Við mat á áhrifum af starfsemi félags á samfélag og umhverfi er nauðsynlegt að horfa til allrar starfseminnar og meta hvar starfsemin hefur, eða getur haft, jákvæð eða neikvæð áhrif. Hér undir falla áhrif bæði af eigin starfsemi sem og í virðiskeðjunni, þar með talið vörur og þjónusta félagsins ásamt viðskiptatengslum. Viðskiptatengsl í þessu samhengi takmarkast ekki við bein samningsbundin sambönd heldur eiga einnig við alla virðiskeðju félagsins.

Við mat á jákvæðum áhrifum byggir mikilvægismatið á eðli og umfangi áhrifanna og fyrir hugsanleg jákvæð áhrif þarf að horfa til hversu líklegt er að þau raungerist. Við mat á neikvæðum áhrifum eru gerðar ríkari kröfur til félaga en við mat á jákvæðum áhrifum og þarf við það mat að horfa til þeirra ferla og leiðbeininga sem sett eru fram í UN Guiding Principles on Business and Human Rights og OECD Guidelines for Multinational Enterprises. Ef félag kemst að þeirri niðurstöðu eftir mat á neikvæðum áhrifum að það hafi raunveruleg neikvæð áhrif á ofangreinda þætti þarf við mikilvægismatið að horfa á hversu alvarleg hin neikvæðu áhrif eru. Ef neikvæðu áhrifin hafa ekki raungerst en eru möguleg þarf að horfa til hversu líklegt er að þau raungerist og hversu alvarleg þau eru.

Hin víddin í tvíþátta mikilvægismatinu er fjárhagslega mikilvægið en þar ættu endurskoðendur að vera komnir á kunnuglegri slóðir en í fyrrgreindri vídd mikilvægismatsins þar sem áhrif sjálfbærnimála eru í brennidepli. Áhrif vegna sjálfbærnimála geta verið fjárhagslega mikilvæg eða orðið það síðar þegar það má með sanngjörnum hætti búast við því að þau hafi áhrif á fjárhagslega stöðu félagsins, fjárflæði eða aðgang að fjármagni yfir styttri eða lengri tíma.Við mat á fjárhagslegu mikilvægi sjálfbærnimála skal horfa til þeirra upplýsinga sem vænst er að geti haft veruleg fjárhagsleg áhrif á félagið. Þá þarf einnig að horfa til þess hvort það að sleppa upplýsingunum eða setja þær fram með röngum eða villandi hætti, hefði mögulega áhrif á þær ákvarðanir sem notendur reikningsskilanna taka á grundvelli upplýsinganna.

Það er ekki nægjanlegt að horfa aðeins til þeirra mála sem eru beinlínis á forræði félagsins heldur þarf einnig að horfa til upplýsinga um mikilvægar áhættur og tækifæri sem tengjast viðskiptatengslum umfram það sem horft er til við framsetningu fjárhagsupplýsinga félagsins.

ESRS setur ekki fram ákveðið ferli sem skal fylgja við gerð mikilvægismats né setur viðmið um hvenær málefni telst mikilvægt. Það er því lagt í hendur hvers félags að framkvæma matið í samræmi við kröfur staðalsins og setja viðmið fyrir hvenær málefni telst mikilvægt. Kröfurnar er að finna í ESRS 1 og ESRS 2 auk þess sem drög að leiðbeiningum um tvíþátta mikilvægismat hafa verið gefin út af EFRAG[1]. Þá eru allnokkrir aðilar sem aðstoða félög við gerð tvíþátta mikilvægismats.

Af framangreindu má meta sem svo að framkvæmd tvíþætts mikilvægismats er talsvert flóknari en endurskoðendur eiga að venjast. Með innleiðingu CSRD löggjafarinnar og þar með ESRS hér á landi, verður skylda fyrir ákveðin félög að fá sjálfbærniupplýsingar, sem birtar eru í samræmi við ESRS, staðfestar. Því er mikilvægt fyrir endurskoðendur að kynna sér kröfur og ferli við gerð tvíþátta mikilvægismats til að vera undirbúin fyrir staðfestingarnar.

 

[1] EFRAG (European Financial Reporting Advisory Group) er sjálfstæð stofnun, fjármögnuð af Evrópusambandinu sem veitir sérfræðiþekkingu og ráðgjöf á fjárhagslegri og sjálfbærni upplýsingagjöf. Sjá nánar á efrag.org.

FLE