Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar sem reið yfir heiminn árið 2008 byrjuðu menn að huga að því hvað hefði farið úrskeiðis. Horft var til þess hvaða leiðir væru færar til að koma í veg fyrir að sömu aðstæður myndu koma upp aftur á fjármálamörkuðum.

Útskipti á endurskoðunarfélagi

Helga Ásdís Jónasdóttir, viðskiptafræðingur

Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar sem reið yfir heiminn árið 2008 byrjuðu menn að huga að því hvað hefði farið úrskeiðis. Horft var til þess hvaða leiðir væru færar til að koma í veg fyrir að sömu aðstæður myndu koma upp aftur á fjármálamörkuðum. Í þessu samhengi hefur Evrópusambandið unnið að endurbótum á reglum um endurskoðun, en sú vinna byggist á grunni svokallaðrar grænbókar (Green Paper, Audit Policy, Lessons from the Crisis). Hinn 3. apríl 2014 samþykkti Evrópuþingið tilskipun nr. 2014/56/EU frá Evrópusambandinu um endurskoðun, en með henni var gerð breyting á eldri endurskoðunartilskipun sambandsins. Samkvæmt nýju regluverki skal útskipting endurskoðunarfélaga vera skylda þegar kemur að endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum en þar falla undir t.d. félög með skráð hlutabréf og skuldabréf, lífeyrissjóðir, bankar og vátryggingafélög. Starfstími endurskoðenda hjá einingum tengdum almannahagsmunum skal að hámarki vera tíu ár með möguleika á framlengingu um önnur tíu ár að undangengnu útboði. Útskiptingarskyldu á endurskoðunarfélögum er nú þegar að finna í lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi á Íslandi, en miðast þá hámarkslengd starfstíma við fimm ár.

Skylda við að skipta út endurskoðunarfélagi er þegar samfelldur starfstími endurskoðunarfélags hefur ákveðna hámarkslengd, sem tilgreind er með lögum, áður en nýtt endurskoðunarfélag er ráðið til starfa. Samkvæmt tilskipuninni er markmiðið með útskiptum á endurskoðunarfélagi er að auka bæði gæði endurskoðunar og óhæði endurskoðenda. Það eru margir þættir sem þarf að horfa til þegar kemur að takmörkun á starfstíma endurskoðenda og hafa komið fram ýmis rök bæði með og á móti reglubundum útskiptum á endurskoðunarfélagi:

• Kostir: Aukið traust almennings til endurskoðenda, þar sem störf þeirra er fyrst og fremst að vinna fyrir hönd almennings með því að staðfesta með áritun sinni að fjárhagsupplýsingar fyrirtækja gefi glögga mynd.

• Gallar: Hvert endurskoðunarverkefni er einstakt, þrátt fyrir að grunnurinn að endurskoðuninni sé svipaður og það tekur tíma að kynnast viðskiptavininum og læra á innra og ytra umhverfi félaga sem oft á tíðum er mjög flókið.

Alþingi ber að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins inn í löggjöf landsins. Núverandi löggjöf á Íslandi, þegar kemur að fjármála- og vátryggingafélögum, um útskiptingarskyldu er ívið strangari en kveðið er á um í nýju tilskipuninni. Hins vegar tekur núverandi útskiptingareglan ekki til allra eininga tengdra almannahagsmunum og þar af leiðandi liggur fyrir að breytingar verði að eiga sér stað á lögum um endurskoðendur. Aðildarríkjum er heimilt að ákveða hve langur starfstími endurskoðenda sé, en þó skal hámarkslengd alltaf miðast við tíu ár með möguleika á framlengingu um tíu ár. Erfitt getur verið að ákveða hvað sé „réttur“ tími sem miða skal við hvað varðar hámarks starfstíma endurskoðenda. Starfstími endurskoðenda má ekki vera of stuttur, til að endurskoðandi hafi tíma til þess að kynna sér verkefnið nægilega vel og vinna það af kostgæfni.

Í könnun sem greinarhöfundur framkvæmdi meðal löggiltra endurskoðenda á Íslandi, sem hluta af lokaverkefni í meistaranámi í reikningsskilum og endurskoðun hjá Háskóla Íslands, var leitað eftir áliti endurskoðenda á málefninu. Niðurstöður leiddu í ljós að endurskoðendur voru almennt sammála um að núverandi hámarkslengd starfstíma, þegar kemur að fjármála- og vátryggingafélögum, væri of stuttur. Meirihlutinn, eða um 70% svarenda, taldi að átta til tíu ár væri hæfileg hámarkslengd á starfstíma. Þegar kemur að gæðum endurskoðunar og óhæði endurskoðenda, taldi um helmingur svarenda að gæði endurskoðunarinnar myndi standa í stað. Hins vegar taldi meirihlutinn að óhæði endurskoðenda, í reynd og ásýnd, myndi standa í stað eða aukast. Niðurstöðurnar leiddu ennfremur í ljós að íslenskir endurskoðendur eru jákvæðir í garð útskiptingarskyldu þegar kemur að einingum tengdum almannahagsmunum. Endurskoðendur telja að mikilvægt sé að útskipti á endurskoðunarfélagi eigi sér stað með reglulegu millibili og það muni auka traust með störfum þeirra.

Hér má sjá greinina á Mbl.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 29. okt. 2016
29.10.2016