Ef litið er heildstætt á framangreind fordæmi og þær reglur sem nú gilda um frádrátt vaxtakostnaðar er það lykilatriði að viðkomandi lán verður að hafa rekstrarlegan tilgang og geta talist til kostnaðar við að afla eða ávaxta fé í rekstri.

Vaxtafrádráttur – hvar liggja mörkin?

Páll Jóhannesson, lögmaður Nordik lögfræðiþjónustu

Álitaefni um frádrátt vaxtakostnaðar hafa lengi verið til umræðu í heimi skattamála. Af þeim sökum hafa víða verið settar ýmsar sértækar reglur um slíkan frádrátt eins og t.a.m. reglur um þunna eiginfjármögnun (e. thin capitalisation), en slíkar reglur eiga að draga úr hvata þess að alþjóðlegar samstæður noti fremur vaxtaberandi lán til fjármögnunar en hlutafé með það að markmiði að lækka skattstofna. Finna má ýmsar aðrar takmarkandi reglur sem varða frádrátt vaxtakostnaðar en auk þess geta hinar almennu skattasniðgöngureglur átt við í einstaka málum.

Hér á landi hafa ekki verið settar sértækar reglur um frádrátt vaxtakostnaðar en fjallað er um slíkan kostnað með almennum hætti í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (hér eftir TSL), sbr. 49. gr., og reglugerð nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri, sbr. 5. gr. en auk þess gildir hin almenna regla sem fram kemur í 29. og 31. gr. TSL um frádráttarbæran kostnað. Ljóst er að svo vaxtagjöld geti talist frádráttarbær verða þau að tengjast atvinnurekstrinum og ganga til að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við. Að öðru leyti eru ekki fyrir hendi takmarkanir sem gilda um sérstaklega skilgreindar aðstæður.

Eins og þekkt er hefur nú reynt á vaxtafrádrátt í nokkrum Hæstaréttardómum í tengslum við skuldsettar yfirtökur/samruna, sbr. dóma nr. 555/2012 og 529/2013. Einnig er nauðsynlegt að hafa í huga dóm Hæstaréttar í máli nr. 321/2005, sem fjallaði um frádráttarbærni affalla af skuldabréfi vegna lækkunar hlutafjár. Af úrskurðum yfirskattanefndar verður síðan sérstaklega að nefna nýlegan úrskurð nr. 174/2015 sem fjallaði um nýtt lán móðurfélags til endurfjármögnunar skuldar dótturfélags en vaxtagjöld þess síðarnefnda voru ekki talin frádráttarbær, enda rann það inn í dótturfélagið eftir skuldsetta yfirtöku/ samruna.

Ef litið er heildstætt á framangreind fordæmi og þær reglur sem nú gilda um frádrátt vaxtakostnaðar er það lykilatriði að viðkomandi lán verður að hafa rekstrarlegan tilgang og geta talist til kostnaðar við að afla eða ávaxta fé í rekstri. Ef lánið hefur rekstrarlegan tilgang en kjör lánsins þykja hins vegar óeðlileg hafa skattyfirvöld heimild skv. 2. mgr. 57. gr. TSL til þess að leiðrétta kjörin til samræmis við það sem eðlilegt getur talist. Hins vegar geta óeðlileg kjör ein út af fyrir sig ekki réttlætt að vaxtagjöld séu felld niður í heild sinni ef fyrir liggja rekstrarlegar ástæður fyrir láninu. Ef sýnt er fram á að eini tilgangurinn með lántöku hafi verið skattalegur ávinningur er að sama skapi sýnt fram á að lánið hafi ekki verið tekið af rekstrarlegum ástæðum. Niðurstaðan er á hinn bóginn sú sama hvort sem hún byggir á 31. gr. TSL eða 1. mgr. 57. gr. sömu laga, þ.e.a.s. að vaxtagjöld af slíku láni teljast ekki frádráttarbær.

Samkvæmt ofangreindu er ekki til staðar regla í íslenskum rétti sem takmarka svigrúm hlutahafa til að fjármagna félög með lánum frekar en hlutafé að því gefnu að lánið tengist rekstri félagsins. Ákvæði 2. mgr. 57. gr. TSL gerir hins vegar ráð fyrir að slík lán séu á markaðskjörum eða a.m.k. ekki á „óeðlilegum“ kjörum. Í opinberri umræðu hefur verið bent á að ákvæði 57. gr. TSL gæti mögulega tekið á „óeðlilegu“ hlutfalli lána á kostnað hlutafjár þrátt fyrir að ekki séu til staðar reglur um þunna eiginfjármögnun. Sú nálgun verður að teljast nokkuð langsótt enda yrði þá að sýna fram á hver markaðskjör væru í því sambandi. Hitt er annað mál hvort talist geti óeðlilegt að breyta hlutafjárfjármögnun eftir á í lánsfjármögnun, t.a.m. með arðgreiðslu eða hlutafjárlækkun að því gefnu að upphaflega hlutafjárframlagið hafi ofangreindan rekstrarlegan tilgang. Af umfjöllun yfirskattanefndar að dæma í máli nr. 296/2006 virðist nefndin ekkert sjá því til fyrirstöðu en í forsendum kemur m.a. fram:

Til þess er að líta að viðurkennt er að einkahlutafélag getur greitt arð jafnt með reiðufé fyrirtækisins sem lánsfé sem það kann að afla í þessu skyni. Eins og áður er komið fram setja hvorki lög um tekjuskatt og eignarskatt né önnur lög því skorður að hluthafar í einkahlutafélögum veiti slíkum félögum lán.

Nefndin vísar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 321/2005 og virðist skv. þessum forsendum ekki telja ástæðu til að draga svo víðtækar ályktanir af honum að slík lán geti ekki talist hafa rekstrarlegan tilgang. Neikvæð túlkun á forsendum þess dóms hefði hins vegar getað verið sú að hvers kyns lán sem tekin eru til að „losa fé“ til hluthafa tengdust ekki rekstrinum.

Yfirskattanefnd hefur einnig staðfest að vextir af skuldum sem félög, sem hafa það að meginmarkmiði sínu að fjárfesta í og eiga hluti í öðrum félögum og njóta arðs af þeim, hafa stofnað til vegna fjárfestinga í hlutabréfum, séu frádráttarbærir frá tekjum þeirra sem rekstrarkostnaður, sbr. úrskurð nr. 174/2015. Ekki hefur þar áhrif þó að tekjur af hlutabréfum séu að meginstefnu til ekki skattskyldar, sbr. frádráttarheimild 9. tölul. og 9. tölul. a. 31. gr. TSL og mögulega safnast almennt upp yfirfæranlegt tap hjá slíkum félögum nema á móti komi vaxtatekjur.  

Líkt og skrifað hefur verið um áður má velta fyrir sér forsendum fyrir niðurstöðu í málum nr. 555/2012 og 529/2013 vegna skuldsettra yfirtaka/samruna þar sem slík eignarhaldsfélög sameinast rekstrarfélögum án þess að hægt sé að fara ítarlega yfir þau mál í þessari stuttu grein. Engar lagalegar forsendur eru fyrir hendi til þess að hafna samsköttun slíks eignarhaldsfélags með rekstrarfélagi í yfir 90% eigu slíks félags, sbr. 55. gr., skv. framangreindum forsendum um frádráttarbærni vaxtagjalda. Að sama skapi væru vaxtagjöld slíks eignarhaldsfélags frádráttarbær í áframhaldandi rekstri slíks eignarhaldsfélags. Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar falla þau réttindi að draga slík vaxtagjöld frá tekjum eingöngu niður við samruna þess og dótturfélags þess en ef félögin tvö halda sjálfstæði sínu þá eru vaxtagjöldin að fullu frádráttarbær frá tekjum.

Almennt orðað byggir niðurstaða Hæstaréttar á þeim forsendum að skuldir eignarhaldsfélagsins tengist ekki rekstri dótturfélagsins. Forsendurnar virðast hins vegar ekki hafa verið þær að skuldirnar hafi verið færðar til dótturfélagsins eingöngu í skattalegum tilgangi enda hefði það skv. framansögðu ekki staðist skoðun. Ef horft er á einfalda útgáfu af slíku máli er ljóst að tekjur eignarhaldsfélagsins, sem hefðu verið í formi arðs og söluhagnaðar, verða ekki lengur fyrir hendi eftir samruna. Ef horft er heildstætt á málið verður eftir sem áður ekki annað ráðið en að höfnun á vaxtafrádrætti eftir samruna slíkra félaga hafi meira með form að gera fremur en efni. Oft er erfitt að átta sig á hvers vegna ráðist er í svo íþyngjandi aðgerðir gegn skattgreiðendum jafnvel þótt lagatæknilega sé hægt að ná fram neikvæðri niðurstöðu.

Með vísan til þess er að framan greinir verður útgangspunktur vegna vaxtagjalda skv. núverandi reglum alltaf hvort hægt sé að sýna fram á hinn rekstrarlega tilgang að baki láninu. Að sama skapi má einnig ráða af fordæmum og skilaboðum skattyfirvalda að þegar á reynir munu markatilvik í flestum tilvikum túlkuð ríkinu í vil á kostnað skattgreiðenda.

FLE blaðið 2016