Möguleikarnir eru miklir og í raun er hugmyndaflug endurskoðandans eini takmarkandi þátturinn við þessar greiningar.

Aukið virði endurskoðunar með gagnagreiningum

Árni Claessen löggiltur endurskoðandi og hluthafi hjá KPMG ehf

Þróun í tölvutækni og gagnavinnslu hefur gert fyrirtækjum kleift að safna saman og geyma gríðarlegt magn af gögnum og ítarlegum upplýsingum um rekstur sinn og viðskipti. Þessi þróun mun hafa mikil áhrif á störf endurskoðenda og framkvæmd endurskoðunar. Nú þegar hafa mörg endurskoðunarfyrirtæki lagt út í umtalsverðar fjárfestingar í hugbúnaði sem hægt er að nýta við að vinna úr og greina mikið magn af gögnum. Í dag byggir endurskoðun talsvert á því að draga ályktanir af tiltölulega litlum úrtökum og heimfæra upp á allt þýðið.

Greiningartækin munu hins vegar gera endurskoðendum kleift að greina allt gagnasafnið heildstætt í þeim tilgangi að uppgötva frávik og skilgreina hvar helstu áhættuþættir liggja. Þróunin í þessa átt hefur verið hröð og mun taka enn meiri framförum á allra næstu árum. Þessi breyttu vinnubrögð munu hafa jákvæð áhrif á gæði, skilvirkni og virði endurskoðunar fyrir viðskiptavininn og aðra hagsmunaaðila. Endurskoðendur þurfa áfram að beita dómgreind og ákveða áherslur við endurskoðunina en þeir munu hafa betri og ítarlegri gögn til að byggja ákvarðanir sínar á.

Nú þegar styðjast flest endurskoðunarfyrirtæki við greiningartæki við skoðun á bókahaldsfærslum. Þau greiningartæki sem nú eru að koma fram gefa hins vegar möguleika á ítarlegri greiningum með því að yfirfara allar bókhaldsfærslur, kortleggja tengsl milli færslna og greina þær færslur sem eru óvenjulegar og ekki í samfellu við aðrar færslur. Þetta gefur líka möguleika á að framkvæma t.d. frávikagreiningu á öllum færslum í tekju- og innkaupaferli frá pöntun til greiðslu, endurreikna birgðaverðmæti og yfirfara aðgreiningu starfa, óvenjuleg viðskiptakjör, samanburð á einingakostnaði milli tímabila, afstemmingar milli yfir- og undirkerfa o.s.frv. Með aukinni tækni verður hægt að öðlast dýpri skilning á eftirlitsaðgerðum og greina með mikilli nákvæmni fjölda frávika þegar allt gagnasafnið er til skoðunar. Þá verður einfaldara að greina ástæður frávika og leggja um leið áherslu á að skoða þá þætti þar sem hættan á frávikum er mest.

Við gagnagreiningu verður einnig hægt að bera saman gagnasöfn við ytri upplýsingar til að spá fyrir um hvernig lykilþættir í efnahagslífinu og atvinnugreininni og fleiri þættir hafa áhrif á reksturinn. Slíkar greiningar verða mikilvægar við að meta og koma böndum á helstu áhættuþætti í rekstri fyrirtækja. Smám saman stækkar líka gagnagrunnurinn og hægt verður að nýta gögn yfir lengri tíma til að greina ákveðin munstur og meta áhættuþætti. Þá verða auknir möguleikar á að framkvæma tölfræðilega greiningu á árangursmælikvörðum og fylgni milli ólíkra mælikvarða í mismunandi ferlum og deildum. Möguleikarnir eru miklir og í raun er hugmyndaflug endurskoðandans eini takmarkandi þátturinn við þessar greiningar.

Við gagnagreiningu af þessu tagi er mikilvægt að fyllsta öryggis sé gætt við meðhöndlun gagna. Það er þó ekkert nýtt fyrir endurskoðendur því nú þegar eru miklar kröfur gerðar varðandi öryggi við meðhöndlun trúnaðarupplýsinga og varðveisla gagna. Það gæti tafið þessa þróun að mörg fyrirtæki eiga enn talsvert í land með að geta nýtt það mikla magn upplýsinga sem nú þegar er verið að safna og geyma. Stjórnendur þurfa hins vegar að búa sig undir að geta afhent til endurskoðunar heildstæðari og ítarlegri gögn en áður hefur verið kallað eftir við endurskoðun reikningsskila.

Eins og komið hefur fram eru kostir þess að nýta greiningartæki við endurskoðun ótvíræðir. Þó er mikilvægt að endurskoðendur og stjórnendur byrji að kortleggja og ræða hvaða áhrif þessi þróun muni hafa og með góðri samvinnu reyna að hámarka þann mikla ávinning sem ný vinnubrögð munu hafa á virði endurskoðunarþjónustunnar fyrir alla hagsmunaðila. 

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 12. nóvember  2015 bls. 12. 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 12. nóv. 2015