Umræða um framtíð fjármálafyrirtækja, fjármálatækni og gjaldmiðla litast þessa dagana mikið af hugtakinu „FinTech“ og þeim fyrirtækjum sem bjóða upp á FinTech lausnir.

Fjármálatækni framtíðarinnar

Þórarinn Ólason, faggiltur tölvuendurskoðandi hjá EY

Umræða um framtíð fjármálafyrirtækja, fjármálatækni og gjaldmiðla litast þessa dagana mikið af hugtakinu „FinTech“ og þeim fyrirtækjum sem bjóða upp á FinTech lausnir. En hvað er FinTech?

Til eru margar mismunandi skilgreiningar á FinTech, þó flestar byggist þær á sama grunni. Einfaldasta útskýringin er bein þýðing á orðinu sem FinTech er dregið af, Financial Technology eða fjármálatækni á íslenskri tungu. Önnur og dýpri skilgreining er að þetta séu fyrirtæki sem sameina nýsköpun og tækni í frumlegar viðskiptahugmyndir og vinna þannig að því að auðvelda, bæta og rjúfa (e. disrupt) hefðbundna fjármálastarfsemi.

FinTech fyrirtæki eru oft flokkuð í tvo flokka eftir eðli þeirra lausna sem þau bjóða upp á. Þar er annars vegar talað um þau fyrirtæki sem rjúfa (e. disruptors) og er þá átt við að lausnir þeirra koma inn á markaðinn með nýja nálgun, í samkeppni við þær hefðbundnu lausir sem fyrir eru á markaði. Hin tegundin er hins vegar þau fyrirtæki sem með sínum lausnum byggja upp nýja þjónustu eða viðbót við núverandi þjónustu (e. constructors) og stuðla þannig að nýjum, áður ónýttum tekjustraumi.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um velgegni FinTech fyrirtækja á fjármála- og tryggingamarkaði. Sú velgegni er helst tengd við breyttar áherslur og lausnamiðaða nálgun þeirra, sem oftast snýr að því að einfalda ákveðna og flókna hluta daglegs lífs. Þ.e.a.s. FinTech lausnir eru frekar sniðnar að, og mótaðar út frá, þörfum notenda fremur en út frá núverandi getu fyrirtækis.

Sem dæmi um þennan mun á nálgun má nefna hefðbundinn banka sem ávaxta þarf innlán og gerir það m.a. með vörunni „bílalán“ sem hann býður viðskiptavinum sínum. Þar er peningur sem þarfnast ávöxtunar aðalatriðið. FinTech fyrirtæki myndi hinsvegar, samkvæmt „uppskriftinni“, horfa til ferlisins við það að fjármagna kaupa á bíl og greina þarfir neytenda. Þ.e. hvar tækifæri eru til þess að einfalda og tæknivæða ferlið með nýrri nálgun, til dæmis með því að bjóða upp á greiðslumat, lánveitingu og endurskráningu ökutækisins í einu ferli í gegnum smáforrit (e. app) á mun skemmri tíma en bankinn býður upp á í hefðbundinni lánastarfsemi.

Áhrif FinTech fyrirtækja fara sífellt vaxandi. Úttekt EY sem framkvæmd var í völdum stórborgum um allan heim sýnir að 15,5% íbúa þeirra nýttu sér FinTech lausnir. Hlutfallið er enn hærra sé litið til helstu stórborga í hinum vestræna heimi og má þar sem dæmi nefna London með 25,1% og New York með 33,1%. Við úttekt EY var byggt á þeirri skilgreiningu að til „FinTech notenda“ teljist þeir sem að nota að minnsta kosti tvær FinTech lausnir að staðaldri.

Áhugavert er að sjá að í sömu úttekt greinir EY sterk tengsl milli búsetu, tekna, aldurs og notkunar á FinTech lausnum. Meðal annars kemur fram að yfir 50% einstaklinga á aldrinum 18-54 með árstekjur yfir 150 þúsund bandaríkja dala séu FinTech notendur, og er því spáð að það hlutfall fari yfir 65% á komandi árum.

Það virðist því óumflýjanlegt að þau hefðbundnu fyrirtæki sem fyrir eru á fjármála- og tryggingamarkaði hafi um þrennt að velja:

1. Kaupa, sameinast eða vinna með FinTech fyrirtækjum að nýjum lausnum.

2. Leggja tíma og fjármuni í að endurhanna lausnir sínar og aðlaga starfsemi sína að breyttum þörfum markaðarins.

3. Bíða og vona að FinTech sé bóla sem springur.

Það að bíða og vona gæti þó reynst hættulegur leikur því úttektir á þessum markaði sýna að sífellt meira fjármagni hefur verið veitt til FinTech markaðarins undanfarin ár og er svo komið að tvöfalt meira af áhættufjármagni (e. venture capital) var veitt í slík fyrirtæki árið 2015 en árið áður.

Það er því mikilvægt fyrir fyrirtæki á fjármála- og tryggingamörkuðum að fylgjast vel með og vera viðbúin því að bregðast við þörfum markaðarins. Sofi þau á verðinum er hætta á að þau tapi tekjustraumum sínum til hinna sífellt fjölgandi FinTech fyrirtækja.

Hér má nálgast greinina á Mbl.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 28. júní 2016