Kynjahallinn í hópi þeirra sem hljóta löggildingu í endurskoðun bendir til þess að konur velji síður en karlar að reyna við prófið, og að þeim gangi verr í prófinu.

Hvað er það sem stöðvar konur í endurskoðun?

Ingunn H. Hauksdóttir, löggiltur endurskoðandi hjá EY

Konur eru í umtalsverðum meirihluta þeirra sem útskrifast hafa úr viðskiptafræði á síðustu árum á Íslandi. Það gildir jafnt um þá sem hafa valið sér reikningshald og endurskoðun eins og önnur svið viðskiptafræðinnar; 61% þeirra sem útskrifast hafa með meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun úr HR á síðustu 9 árum eru konur. Þrátt fyrir þetta hafa aðeins 37 konur hlotið löggildingu í endurskoðun á síðustu níu árum. Á sama tíma hafa 68 karlmenn bæst í hópinn.

Þótt það kunni að vera ómögulegt að draga víðtækar ályktanir út frá þessu einu og sér, þá er því ekki að leyna að mjög sterkar vísbendingar eru í þá átt að ungar konur séu umtalsvert ólíklegri en karlkyns jafnaldrar þeirra til þess að fara alla þá leið sem þarf til þess að öðlast löggildingu. Vera má að þetta breytist og þokist í aðra átt eftir því sem árin líða, en nýjustu upplýsingar benda því miður ekki til þess.

Til þess að öðlast löggildingu í endurskoðun þarf meðal annars að hafa lokið meistaranámi í reikningshaldi og endurskoðun, starfað að lágmarki þrjú ár undir handleiðslu endurskoðanda og ná þungu löggildingarprófi sem haldið er ár hvert. Á síðustu sjö árum hafa einungis 44% próftökumanna í löggildingarprófum verið kvenkyns, og bendir flest til þess að konum gangi að jafnaði verr en körlum að ná prófinu. Af 120 karlmönnum sem þreytt hafa prófin hafa 49 staðist þau (41%), en einungis 27 af 93 konum (29%). Því miður bendir þróun síðustu ára ekki til þess að það sé að draga saman með kynjunum, eða eftir að nýtt fyrirkomulag próftöku var tekið í notkun, þar sem háð er eitt tveggja daga próf en ekki fjögur dagslöng próf. Á síðustu fjórum árum hafa einungis átta konur staðist prófið af þeim 35 sem hafa tekið það (23%), en árangur þeirra 65 karlmanna sem á sama tíma hafa tekið prófið er umtalsvert betri því 23 þeirra hafa náð prófinu (35%) og eru í dag orðnir löggiltir endurskoðendur.

Markmiðið með löggildingarprófum á borð við þau sem endurskoðendur þreyta er að tryggja að einungis þeir sem sannarlega hafa til þess þekkingu öðlist réttindi til að sinna því hlutverki sem endurskoðendum er treyst fyrir í samfélaginu. Engum dettur í hug að rétt sé að draga úr eða breyta þeim kröfum sem gerðar eru til starfsstéttarinnar. Það er hins vegar mikið og áleitið umhugsunarefni hvort aðferðin sem notuð er til þess að skilja í sundur þá sem eru tilbúnir til þess að gegna hlutverki endurskoðenda frá þeim sem eru það ekki mæli raunverulega réttu þekkinguna og á réttan hátt.

Hlutverk og starf endurskoðandans hefur breyst umtalsvert á síðustu árum og áratugum. Endurskoðendur sitja sjaldnast í dimmum kompum, með axla- og ermabönd, der og stóra reiknivél með löngum strimli undir grænum ljóslampa. Hlutverk endurskoðanda er í dag síbreytilegt og krefst sífelldrar þekkingarleitar, frjórrar hugsunar og skipulegra vinnubragða.

Kynjahallinn í hópi þeirra sem hljóta löggildingu í endurskoðun bendir til þess að konur velji síður en karlar að reyna við prófið, og að þeim gangi verr í prófinu. Mjög ólíklegt verður að teljast að þetta sé einhvers konar staðfesting á því að endurskoðun sé fag sem henti öðru kyninu betur en hinu. Nærtækari skýring er að eitthvað í umhverfi löggildingar – allt frá ráðningu og verkefnum lærlinga, til prófsins sjálfs – geri konur fráhverfari því að vilja, þora og geta orðið löggiltir endurskoðendur.

Hér er hægt að nálgast greinina á Mbl.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 1. febrúar 2016