Nýi staðallinn um leigusamninga mun hafa mikil áhrif á reikningsskil leigutaka í framtíðinni þar sem þeir munu í flestum tilvikum einnig þurfa að færa rekstrarleigusamninga í efnahagsreikning sínum, með því að eignfæra nýtingarrétt að leigueign og færa skuld vegna framtíðarleigugreiðslna.

Meira af leigusamningum í reikningsskilum

Árni Claessen, löggiltur endurskoðandi og hluthafi hjá KPMG ehf.

Á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um nýjan staðal um leigusamninga í reikningsskilum (IFRS 16) sem Alþjóðlega reikningsskilaráðið (IASB) hefur unnið að. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá IASB stefnir ráðið nú að því að gefa út staðalinn í ársbyrjun 2016. Reiknað er með að staðallinn gildi fyrir reikningsár sem hefjast 1. janúar 2019 eða síðar. Það eru því framundan talsverðar breytingar á reikningsskilum félaga sem fylgja alþjóðlegum reikningsskilastöðlum enda þurfa þau einnig að innleiða nýja reikningsskilastaðla umTekjur af samningum við viðskiptavini (IFRS 15) ogFjármálagerninga (IFRS 9), en þeir munu taka gildi 1. janúar 2018.

Nýr staðall um leigusamninga mun einnig hafa áhrif á reikningsskil félaga sem fylgja íslensku ársreikningalögunum enda ber þeim í samræmi við 29. gr. ársreikningalaganna að færa eignarleigusamninga í efnahagsreikning í samræmi við samningsákvæði og settar reikningsskilareglur.

Nýi staðallinn um leigusamninga mun hafa mikil áhrif á reikningsskil leigutaka í framtíðinni þar sem þeir munu í flestum tilvikum einnig þurfa að færa rekstrarleigusamninga í efnahagsreikning sínum, með því að eignfæra nýtingarrétt að leigueign og færa skuld vegna framtíðarleigugreiðslna. Reyndar verður ekki lengur gerður greinarmunur milli rekstrarleigu og fjármögnunarleigu í reikningsskilum leigutaka. Hjá fyrirtækjum sem leigja til sín eignir á rekstrarleigu mun þetta hækka bókfærðar skuldir þeirra og hafa áhrif á kennitölur, s.s. um arðsemi og fjármagnsskipan og lækka eiginfjárhlutfall. Það gæti því verið þörf á því að yfirfara að nýju lánasamninga enda hugsanlegt að í einhverjum tilvikum munu þessi fyrirtæki þurfa að endursemja um ný viðmið varðandi fjárhagsleg skilyrði slíkra samninga. Staðallinn mun einnig hafa áhrif á ýmsar lykilstærðir rekstrarreiknings og EBITDA þessara fyrirtækja, þar sem gjaldfærsla leigugreiðslna verður í formi afskrifta nýtingarréttar og vaxtagjalda af leiguskuld.

Gera má ráð fyrir að mikill tími geti farið í innleiðingu þar sem fyrirtæki munu þurfa að greina leigusamninga sína samkvæmt kröfum staðalsins, uppfæra upplýsingakerfi til að geta náð fram réttum upplýsingum, framkvæma flókna útreikninga og taka afstöðu til nýrra álitamála og reikningshaldslegs mats.

Reglur um innleiðingu á nýja staðlinum eru nokkuð flóknar en ýmsir valkostir verða í boði við innleiðinguna. Ein af lykilákvörðunum sem þarf að taka er hvort eigi að láta áhrif innleiðingar koma fram að fullu á innleiðingarári eða breyta samanburðarfjárhæðum afturvirkt. Það mun kosta meiri vinnu og fjármuni að breyta samanburðarfjárhæðum afturvirkt. Þessi aðferð mun hins vegar hafa þá kosti í för með sér að hægt verður að bera saman sögulega þróun á rekstri og efnahag. Sögulegur samanburður á rekstri og efnahag þeirra félaga sem kjósa að láta áhrif staðalsins koma fram á innleiðingarári mun hins vegar verða erfiður.

Í staðlinum mun væntanlega verða undantekning varðandi leigusamninga um eignir undir tilteknum fjárhæðarmörkum (USD 5.000 eða tæpar 700.000 íslenskar krónur). Slíka leigusamninga þyrfti ekki að færa í reikningsskilin í samræmi við ákvæði staðalsins, jafnvel þó að í heild sinni væri um að ræða verulegar fjárhæðir, svo lengi sem sérhver eign er undir fjárhæðarmörkunum. Jafnframt verður heimilt að beita ekki staðlinum á leigusamninga þar sem leigutími, eins og hann verður skilgreindur í staðlinum, verður styttri en eitt ár. Þessi ákvæði eru nokkuð umdeild enda gæti myndast hvati hjá fyrirtækjum að gera styttri leigusamninga og halda samningum undir fjárhæðarmörkum ef þess er nokkur kostur.

Þó að enn séu þrjú ár í að staðallinn taki gildi þurfa stjórnendur nú þegar að huga að áhrifum staðalsins og safna saman upplýsingum um alla samninga sem gætu átt heima undir gildissviði hans. Mikilvægt er að tryggja að ekkert komi á óvart þegar að innleiðingu kemur enda mun þessi staðall geta haft veruleg áhrif á rekstur og fjárhagsstöðu félaga sem fylgja alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og íslenskum ársreikningalögum eins og hér hefur verið tæpt á.

Hér er hægt að nálgast greinina á Mbl.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 18. janúar 2016