…að þrátt fyrir að skattalög falli utan gildissviðs EES samningsins ber aðildarríkjum samningsins engu að síður að beita skattlagningarvaldi sínu þannig að það brjóti ekki í bága við ákvæði samningsins

STAÐGREIÐSLA SKATTS AF ARÐI TIL LÖGAÐILA INNAN EES

Bjarni Þór Bjarnason, meðeigandi, Skatta- og lögræðiráðgjöf Deloitte

BREYTING Á LÖGUM NR. 94/1996 UM STAÐGREIÐSLU SKATTS Á
FJÁRMAGNSTEKJUR – ARÐGREIÐSLUR Á MILLI INNLENDRA AÐILA
Í maí sl. voru tóku gildi breytingar á ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sbr. lög nr. 33/2020 um breytingu ýmsum lögum um skatta og gjöld. Í stuttu máli felur breytingin það í sér að ekki er lengur skylt að halda eftir staðgreiðslu af arði sem úthlutað er á milli félaga sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, en undir ákvæðið falla hlutafélög, einkahlutafélög og samlagshlutafélög sem eru sjálfstæðir skattaðilar.

Fyrir gildistöku ofangreindra breytingalaga hvíldi sú skylda á hlutafélögum að halda eftir staðgreiðslu af arði sem úthlutað var á milli slíkra félaga, enda þótt hann kæmi í raun ekki til skattlagningar þar sem slíkar arðstekjur eru frádráttarbærar samkvæmt 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Þó var sú undantekning gerð að ekki var skylt að halda eftir staðgreiðslu skatts af arði sem úthlutað var á milli hlutafélaga sem höfðu fengið heimild til samsköttunar samkvæmt 55. gr. laga nr. 90/2003.

Eins og rakið var í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarpið sem varð að lögum nr. 33/2020 leiddi þetta fyrirkomulag til óhagræðis fyrir bæði greiðanda og móttakanda arðs auk þess sem ríkissjóður hefði í raun ekki tekjur af þeirri staðgreiðslu sem skilað væri af slíkum arðgreiðslum. Lagði nefndin því til að ofangreind breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur yrði gerð þar sem kveðið yrði á um að afnumin yrði skylda þeirra félaga sem falla undir 1. tölul. 2. gr. tekjuskattslaga til að halda eftir og skila staðgreiðslu af arðgreiðslum þeirra á milli.

ÓBREYTT LÖG UM STAÐGREIÐSLUSKYLDU ARÐGREIÐSLNA TIL ERLENDRA AÐILA INNAN EES
Athygli vekur að í þinglegri meðferð framangreindra breytingalaga virðist ekki hafa verið hugað að því hvaða áhrif breytingin hefði í för með sér fyrir arðgreiðslur til erlendra lögaðila innan EES. Samhengisins vegna þykir rétt að nefna að staðgreiðsluskylda skatts af arðgreiðslum til erlendra aðila byggir ekki á sömu ákvæðum og rakin hafa verið hér að framan, heldur byggist hún á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. A-lið 2. gr. laganna, sbr. 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Með lögum nr. 33/2020 voru engar breytingar gerðar á þeim ákvæðum laganna sem varða arðgreiðslur til erlendra aðila. Samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er því líkt og áður skylt að halda eftir og skila í ríkissjóð staðgreiðslu af arði sem greiddur er til erlendra aðila, þ.m.t. lögaðila innan EES.

Í 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 er svo kveðið á um frádráttarbærni fjárhæða sem hlutafélög, og önnur tilgreind félagaform, hafa fengið greiddar í arð. Með hliðsjón af skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er þar jafnframt kveðið á um að sama frádráttarbærni eigi við um fjárhæðir sem félög í sömu félagaformum sem skattskyld eru skv. 7. tölul. 3. gr. og eru heimilisföst í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum hafa fengið greiddar í arð.

Á þessum grundvelli hafa erlendir lögaðilar innan EES getað fengið endurgreiddan afdráttarskatt sem haldið hefur verið eftir af arðgreiðslum á grundvelli laga nr. 45/1987 með því að skila skattframtali á næsta gjaldári og færa þar til frádráttar fenginn arð    samkvæmt 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Sem dæmi um þetta mætti nefna nýlegan dóm Hæstaréttar í máli nr. 2/2020, en upphaf þess máls má rekja til þess að Iceland Seafood International hf. (ISI) greiddi út arð til hluthafans Iceland Seafood Holdings SARL (ISH) sem staðsett var í Lúxemborg. Í samræmi við heimild í 10. gr. tvísköttunarsamnings á milli Íslands og Lúxemborgar hélt ISI eftir og skilaði afdráttarskatti sem nam 5% af arðgreiðslunni og í kjölfarið skilaði ISH skattframtali á Íslandi og óskaði eftir endurgreiðslu afdráttarskattsins á grundvelli frádráttarheimildarinnar. Óumdeilt var í málinu að félagi í Lúxemborg væri heimilt að nýta sér heimild 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 um frádrátt og endurgreiðslu á afdreginni staðgreiðslu af arði en niðurstaða dóms Hæstaréttar var sú að hafna endurgreiðslunni á grundvelli þess að arðsúthlutunin frá ISI hefði verið ólögmæt.

Með þessu hefur verið leitast við að gæta þess að ekki skattalögin mismuni ekki hluthöfum eftir því hvort þeir eru staðsettir á Íslandi eða í öðrum aðildarríkjum innan EES. Það má hins vegar ljóst vera að það getur skipt verulegu máli hvort aðilar þurfi að sæta því að haldið sé eftir staðgreiðslu af arðgreiðslum.

ÓLÖGMÆT MISMUNUN
Með hliðsjón af ofangreindu er ljóst að hlutafélag sem fær greiddan arð frá íslensku hlutafélagi eða einkahlutafélagi er ekki í  sömu stöðu eftir því hvort það er staðsett á Íslandi eða í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Það er því með öðrum orðum mismunur á stöðu þessara aðila sem byggir eingöngu á ríkisfangi þeirra.

Samkvæmt 40. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skulu engin höft vera á milli samningsaðila á flutningum fjármagns né nokkur mismunun byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestinga. Um samspil ákvæðisins og íslenskra skattalaga var m.a. fjallað í dómi EFTA dómstólsins máli nr. E-14/13 (ESA gegn Íslandi), en í stuttu máli er það svo að þrátt fyrir að skattalög falli utan gildissviðs EES samningsins ber aðildarríkjum samningsins engu að síður að beita skattlagningarvaldi sínu þannig að það brjóti ekki í bága við ákvæði samningsins. Það þýði m.ö.o. að aðildarríkin mega ekki beita skattlagingarvaldi sínu með þeim hætti að aðilum sé mismunað á grundvelli búsetu eða ríkisfangs nema slík mismunun teljist vera réttlætanleg.

Eins og fram kom í upphafi var tilefni lagabreytingarinnar í maí 2020 fyrst og fremst það óhagræði sem lögaðilar urðu fyrir við það að staðgreiðslu væri haldið eftir af arði sem væri síðan í raun ekki skattlagður með hliðsjón af frádráttarbærni slíkra arðgreiðslna skv. 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Af framangreindu verður ekki annað séð en að nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við um þá lögaðila innan EES sem njóta sömu frádráttarbærni á grundvalli sama ákvæðis. Er því vandséð að það geti verið  réttlætanlegt að mismuna innlendum og erlendum lögaðilum innan EES með þeim hætti sem núgildandi lög virðast gera.

ER ÞÖRF Á LAGABREYTINGU?
Eins og að framan hefur verið rakið verður ekki annað séð en að núgildandi lög um staðgreiðsluskyldu arðgreiðslna geti leitt til mismununar sem brýtur í bága við 40. gr. EES samningsins. Samkvæmt lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hefur meginmál EES samningsins lagagildi hér á landi. Þá er kveðið á um það í 3. gr. laganna að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Það mætti því hugsa sér að íslensk skattyfirvöld myndu túlka ákvæði laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til samræmis við ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996, 9. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, lög nr. 2/1993 og 40. gr. EES samningsins. Íslensk skattyfirvöld hafa hins vegar almennt sýnt mikla varfærni við slíkar lögskýringar og almennt litið svo á að það sé frekar á valdsviði Alþingis að aðlaga íslensk lög að samningsskuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES samningnum.

Verður því að telja líklegt að lagabreytingu þurfi til að aðlaga lög nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að þeim reglum sem nú gilda um staðgreiðslu skatts af arði á milli innlendra lögaðila samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu opinberra gjalda þannig að sama undanþága frá staðgreiðslu af arði taki til innlendra og erlendra hlutafélaga innan EES. Að öðrum kosti gæti íslenska ríkið talist vera að brjóta samningsskyldur sínar samkvæmt EES samningnum og eftir atvikum bakað sér bótaskyldu gagnvart þeim aðilum sem verða fyrir tjóni af þeim sökum.

Bjarni Þór Bjarnason

FLE blaðið, janúar 2021 1. tbl, 43. árg.