Þessir tólf staðlar eru bara fyrsta skrefið en fleiri staðlar eru nú í vinnslu hjá EFRAG. Annars vegar er um að ræða staðla fyrir ákveðnar atvinnugreinar, þar sem skilgreindar verða kröfur um samræmda upplýsingagjöf og hins vegar staðlar sem verða sérstaklega sniðnir að litlum og meðalstórum félögum (ESRS for SMEs).

Sjálfbærnistaðlar Evrópusambandsins (ESRS) í hnotskurn

Þú breytir ekki því sem ekki er hægt að mæla
Árni Claessen, endurskoðandi hjá KPMG og lektor við Háskóla Íslands

Innleiðing á sjálfbærnireglum Evrópusambandsins er sennilega stærsta breyting á ársreikningsgerð og upplýsingagjöf fyrirtækja síðan Alþjóðlegu reikningsskilastaðlarnir voru innleiddir árið 2005. Sjálfbærnireglurnar hafa veruleg áhrif á öll félög sem falla beint undir löggjöfina en einnig munu önnur félög finna fyrir auknum kröfum um að veita upplýsingar um sjálfbærni þar sem kröfur verða gerðar um að veita sjálfbærniupplýsingar í allri virðiskeðjunni.

Sjálfbærnireglur Evrópusambandsins er um margt flóknar en þær samanstanda af nokkrum aðgreindum lagabálkum sem saman mynda heildstæða löggjöf um sjálfbærniupplýsingar. Þeir staðlar sem hér eru til umfjöllunar eru European Sustainability Reportings Standards (ESRS) en þeir eru hluti af Sjálfbærnitilskipun Evrópusambandsins (CSRD). Ekki er að fullu ljóst hvernig innleiðingu ESRS verður háttað á Íslandi en ekki er ólíklegt að fylgt verði innleiðingaráætlun Evrópusambandsins. Samkvæmt því munu stór félög tengd almannahagsmunum (PIE) þurfa að innleiða staðlana vegna ársreikninga ársins 2024 en þar er um að ræða PIE félög með yfir 500 starfsmenn. Önnur stór félög munu þurfa að innleiða staðlana vegna ársreikninga 2025 en í tengslum við það hefur Evrópusambandið hækkað stærðarviðmið varðandi hvaða félög flokkast sem stór félög[1]. Líklegt er að Ísland fylgi og hækki stærðarmörkin til samræmis við Evrópusambandið. Gert er ráð fyrir að skráð félög sem ekki uppfylla stærðarmörkin innleiði staðlana vegna ársreikninga 2026 en þau munu hafa möguleika á að fresta innleiðingu um tvö ár.

 

ESRS staðlarnir hafa verið þróaðir af EFRAG (European Financial Reporting Advisory Group) og nú er búið að gefa út 12 staðla. Staðlarnir samanstanda af tveimur grunnstöðlum (cross-cutting) og 10 stöðlum sem fjalla um sérstaka málaflokka (topical standards). Grunnstaðlarnir (ESRS 1 og ESRS 2) innihalda almennar kröfur um gerð og framsetningu sjálfbærniupplýsinga og eru ekki bundnir við sérstakan málaflokk. Hinir staðlarnir innihalda hins vegar skýringarkröfur tengdar þremur málaflokkum sem eru umhverfismál (E1-E5), félagsmál (S1-S4) og stjórnarhættir (G1). ESRS 1 og ESRS 2 eru lögbundnir en skyldan til að fylgja öðrum stöðlum byggir á niðurstöðum mikilvægisgreiningar. Í því felst að einungis þarf að fylgja stöðlum í þeim málaflokkum sem hafa verið metnir sem mikilvægir í starfsemi félagsins byggt á niðurstöðum tvíþátta mikilvægisgreiningar (double materiality).

Yfirlit yfir staðlana má finna í töflunni hér til hliðar og eftirfarandi er stutt samantekt um efni staðlana:

Almennar kröfur - ESRS 1

ESRS 1 er nokkurs konar hugtakarammi sem inniheldur grundvallar leiðbeiningar um gerð sjálfbærniupplýsinga s.s. um framsetningu og umfang þeirra, skilgreiningar á lykilhugtökum, áhættumat og tvíþátta mikilvægi, stjórnarhætti, eftirlit og viðmið varðandi tímasetningar. Í þessum staðli er ekki að finna beinar skýringarkröfur heldur er grunnurinn lagður að því hvernig skal beita sjálfbærnistöðlunum.

Almenn upplýsingaskylda – ESRS 2

ESRS 2 skilgreinir ítarlega hvernig sjálfbærniupplýsingar eiga að vera settar fram fyrir hvernig málaflokk. Staðallinn gerir ráð fyrir að skýringar fyrir þá málaflokka sem falla undir að vera mikilvægir séu settar fram með eftirfarandi hætti:

  • Upplýsingar um stjórnarhætti tengdum málaflokknum (governance)
  • Stefna í málaflokknum (strategy)
  • Hvernig félagið metur og stýrir áhættu og tækifærum (impact, risk and opportunity)
  • Mælikvarðar og markmið (metrics and targets)

Einnig er að finna í ESRS 2 kröfur um hvernig uppbygging og innihald staðla tengd einstökum málaflokkum skuli vera.

Umhverfismál ESRS E1-E5

Fimm staðlar eru tengdir umhverfismálum: Loftlagsbreytingar (E1), Mengun (E2), Vatns- og sjávarauðlindir (E3), Líffræðileg fjölbreytni (E4) og Auðlindir og hringrásarhagkerfið (E5).

 

Umhverfisstaðlarnir gera í sumum tilvikum einnig kröfur um að setja fram áætlanir um hvernig félagið ætli að ná fram umhverfismarkmiðum Evrópusambandsins (EU Green Deal) og áætlunum um hvernig félagið ætli að gera rekstur sinn umhverfislega sjálfbæran.

Félagslegir þættir ESRS S1-S4

Fjórir staðlar eru tileinkaðir félagslegum þáttum. Fyrsti staðallinn fjallar um mannauð félagsins (S1) þar sem félagið veitir upplýsingar um starfsfólk sitt en starfsfólk í virðiskeðjunni (S2) er umfjöllunarefni næsta staðals. Upplýsingar um áhrif á samfélagið (S3) og neytendur og viðskiptavini (S4) eru síðan umfjöllunarefni í sitt hvorum staðlinum. Í stöðlum S2, S3 og S4 eru ekki gerðar kröfur um að veita tölulegar upplýsingar heldur eingöngu um að ræða skýringar í texta.

 

Stjórnarhættir ESRS G1

Staðall G1 (business conduct) inniheldur skýringarkröfur um stefnur, ferli, markmið og árangursmat sem tryggir að félagið starfi með siðferðilega ábyrgum hætti. Í staðlinum er einnig að finna upplýsingar um hlutverk stjórnenda og eftirlitshlutverk stjórnar og stjórnenda. Meðal skýringarkrafna sem finna má í staðlinum eru upplýsingar um fyrirtækjamenningu, viðbrögð við spillingu og mútum, vernd uppljóstrara, hvaða reglur félagið hefur sett sér um samskipti við birgja o.fl.

 

Þessir tólf staðlar eru bara fyrsta skrefið en fleiri staðlar eru nú í vinnslu hjá EFRAG. Annars vegar er um að ræða staðla fyrir ákveðnar atvinnugreinar, þar sem skilgreindar verða kröfur um samræmda upplýsingagjöf og hins vegar staðlar sem verða sérstaklega sniðnir að litlum og meðalstórum félögum (ESRS for SMEs).

 

Það er ljóst að innleiðing ESRS er viðamikið verkefni en í grunninn snýst það um að spyrja spurninga, framkvæma áhættumat, skoða hvaða áhrif félagið hefur á innra og ytra umhverfi sitt og setja sér markmið og lykilmælikvarða í því samhengi. Ávinningurinn fyrir félög sem innleiða sjálfbærnistaðlana sem hluta af sinni kjarnastefnu er margþættur bæði til skamms og langs tíma. Félög sem framkvæma áhættumat og sýna fram á hvernig þau fylgjast með, meta og bregðast við þeim áhættum sem þau búa við munu hafa forskot á önnur fyrirtæki. Þeim bjóðast hagstæðari kjör við fjármögnun og tryggingarfélög eru farin að veita þeim hagstæðari tryggingar. Í þessu felst líka meiri umhyggja fyrir umhverfinu, mannauðnum og virðiskeðjunni sem skilar sér í ánægðara starfsfólki, minni starfsmannaveltu auk þess sem viðhorf félaga til sjálfbærnimála hefur stöðugt meiri áhrif á val viðskiptavina og birgja. Markvissir stjórnarhættir og áhættustýring skilar sér sömuleiðis í skilvirkara fyrirtæki þar sem fjárhagslegur ávinningur er ekki bara til langs tíma heldur heldur má greina áhrifin strax. Kolefnislosun er líka að verða stöðugt dýrari og kvaðir vegna hennar munu verða mjög íþyngjandi fyrir félög á næstu árum og augljós fjárhagslegur ávinningur að bregðast við því í tíma.

 

Stór félög á Íslandi þurfa nú þegar að birta ýmsar ófjárhagslegar upplýsingar í samræmi við 66. gr. d. laga um ársreikninga nr. 3/2006 en við innleiðinu ESRS er gert ráð fyrir að núverandi kröfur um ófjarhagslega upplýsingagjöf detti út. Það er ljóst að mörg íslensk fyrirtæki munu þurfa að bæta verulega í upplýsingagjöf og skýringar tengdum sjálfbærni. Í þessum 12 stöðlum eru samtals 1178 skýringarkröfur (datapoints) en fjöldi skýringa hjá hverju félagi mun fara eftir niðurstöðum tvíþátta mikilvægisgreiningar. Það er lykilatriði við farsæla innleiðingu að líta ekki á þetta sem íþyngjandi kvöð þar sem markmiðið verður að uppfylla lágmarksskilyrði í upplýsingagjöf með sem minnstum tilkostnaði. Við þurfum að bera virðingu fyrir því að það verið að vinna að breyttum viðmiðum og hugsunarhætti við gerð ársskýrslna hjá félögum. Megináherslan í upplýsingagjöfinni er ekki lengur á sjóðstreymi og hagnað til skamms tíma. Það skiptir ekki síður máli að upplýsa um hvaða aðferðum er beitt við að afla teknanna og skapa hagnaðinn og það sé gert með ábyrgum og sjálfbærum hætti í þeim skilningi að það sé ekki á kostnað umhverfisins og að félög starfi með siðferðilega ábyrgum hætti.

 

Nálgun Evrópusambandsins með ESRS stöðlunum er að ná fram hvata fyrir breytingar í efnahagslífinu og um um leið færast nær sjálfbærnimarkmiðunum sínum með því að setja fram kröfur um stjórnskipulag, gagnsæi og að upplýsingar séu staðfestar. Þetta er að mörgu leyti nýr heimur fyrir okkur endurskoðendur þar sem verið er að er að stækka og breikka hlutverk fjármála, bókhalds og endurskoðenda. Með innleiðingu á ESRS stöðlunum er verið að tengja saman fjárhagslegar og ófjárhagslegar upplýsingar og endurskoðendur standa frammi fyrir því að þurfa að hafa grundvallarskilning á hugtökum eins og kolefnislosun, mannréttindum, líffræðilegum fjölbreytileika o.s.frv. Það verður einnig áskorun fyrir endurskoðendur að mikið af þeim upplýsingunum sem verið er að vinna með eru byggðar á mati, uppruni þeirra er annars staðar en úr bókhaldinu auk þess sem að stór hluti af upplýsingum sem þarf að staðfesta eru í formi texta en ekki talna. Innleiðing ESRS verður því ekki síður áskorun fyrir okkur endurskoðendur. Við gegnum samt lykilhlutverki í þessari stóru umbreytingu og mikilvægt að við tökum okkar hlutverk alvarlega. Tækifærin eru óþrjótandi, bæði hvað varðar aukið þjónustuframboð en einnig persónulega því þeir sem kynna sér efnið og nálgast það með jákvæðum hætti fara óhjákvæmilega að horfa á lífið og umhverfið öðrum augum og kunna að meta breytinguna. Eftir nokkur ár munu viðhorf okkar flestra hafa breyst og við taka ný gildi og viðmið þar sem við förum að veita umhverfinu aukna athygli og láta okkur það almennt meira varða en við gerum í dag.

 

[1] Samkvæmt viðmiðum Evrópusambandsins telst félag vera stórt ef það fer fram úr tveimur af eftirfarandi viðmiðum: 250 starfsmenn, Velta EUR 50m (ca. ISK 7,5 ma.), heildareignir EUR 25m (ca. ISK 3,8 ma).

FLE